„Við fórum út frá Grindavík í fyrsta sinn í hálft ár af því að það var landað þar síðast. Þá var allt með kyrrum kjörum,“ segir Valur Pétursson, skipstjóri á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK.

Áhöfnin á Hrafni kom til löndunar í Hafnarfirði aðfaranótt síðastliðins mánudags eftir 25 daga úthald.

„Við lönduðum núna í Hafnarfirði af því að þá var aftur komið óvissuástand í Grindavík. Við vildum ekki lenda í því að vera með bryggjuna hálf fulla af frystum afurðum og þurfa að lenda í rýmingu. Það gæti orðið mjög dýrt,“ segir Valur.

Að sögn skipstjórans hófst túrinn á því 11. apríl að farið var frá Grindavík og beint út á Eldeyjarbanka. „Við lentum þar strax í fiski. Byrjuðum vestan við Boðann og fengum þar ufsa fyrstu dagana. Það stóð stutt yfir,“ segir Valur.

Þorskleysi ýtti þeim vestur

Valur Pétursson skipstjóri og Brynjar Friðbergsson stýrimaður. Mynd/Friðrik Gígja
Valur Pétursson skipstjóri og Brynjar Friðbergsson stýrimaður. Mynd/Friðrik Gígja

Enginn þorskur var að sögn Vals farinn að ganga út í upphafi túrsins. Það hafi því eiginlega verið þorskleysi sem ýtti þeim út í að þurfa að fara að leita enn frekar að ufsa. Þeir hafi því haldið vestur og fengið ufsa þar.

„Við byrjuðum á Halanum og fengum svo aðeins þorsk á Þverálshorninu. Við komum svo aftur til baka og fengum ufsa á Halanum og fengum líka ágætis ufsaveiði í kantinum vestan við Hala. Þetta var svona skot sem stóðu í mesta lagi í tæpan sólarhring. Svo var það búið,“ segir Valur.

Þá hafi stefnan aftur verið tekin suður á bóginn.

„Við fórum þá suður á Eldeyjarbanka og þar fengum við loksins þorsk, ágætis veiði og svona þrjátíu prósent ufsa með í tvo daga. Við fórum svo sunnar á bankann og þar var ýsa og þorskur. Svo var farið á Reykjanesgrunn og þessi rúntur, Eldaeyjarbanki-Reykjanessgrunn að leita að ufsa og svo að veiða ýsu og þorsk,“ heldur Valur áfram að lýsa túrnum sem var enn ekki búinn.

Þorskur á Flugbrautinni

„Þá var byrjaður að ganga út þorskur á Flugbrautina vestur af Snæfellsnesi. Við fengum fína veiði þar og ákváðum síðan að fara þaðan aftur vestur að athuga hvort þar væri ufsi en gripum í raun og veru í tómt. Það var ekkert annað en karfi í kantinum þar þá. Við fengum aðeins ufsa á Halanum, tíu tonna nót, og svo var það bara búið. Þá fórum við aftur suður og fengum aftur þorsk á Flugbrautinni. Svo restuðum við þetta á Reykjanesgrunni og Selvogsbanka í ufsa og ýsu,“ tæmir Valur frásögnina af yfirreið þeirra Hrafnsmanna.

„Heilt yfir gekk þetta nokkuð vel. Við fengum alltaf fisk þegar við fórum á milli svæða þannig að það var í raun og veru vinnsla allan túrinn fyrir utan tvo síðustu dagana þegar við vorum að resta á Selvogsbankanum í ýsu sem var eiginlega alveg horfin þar.“

Hinn fínasti túr

„Það var alveg ótrúlega gott veður eiginlega allan tímann,“ segir Valur skipstjóri enda greip Jóhann Ottesen kokkur tækifærið og grillaði úti. Mynd/Aðsend
„Það var alveg ótrúlega gott veður eiginlega allan tímann,“ segir Valur skipstjóri enda greip Jóhann Ottesen kokkur tækifærið og grillaði úti. Mynd/Aðsend

Alls var komið með tæp 640 tonn að landi eftir 25 daga túr. „Við erum með mest af þorski og ufsa núna. Um tæp 210 tonn af þorski, tæp 190 tonn af ufsa, tæp 120 tonna af karfa og níutíu tonn af ýsu. Svo er lítið af öðru,“ segir Valur sem kveður túrinn hafa verið hinn fínasta. „Við náðum að slíta þokkalega upp af ufsa og það er sú tegund sem allir eru að leita að.“

Aðspurður segir Valur áhöfnina engan veginn búna að venja sig við stöðu mála í Grindavík.

„Ég held að þetta venjist ekkert, tala nú ekki um fyrir þá sem bjuggu þar og hafa þurft að fara,“ segir Valur sem sjálfur er úr Grindavík en hefur búið í Reykjavík um skeið. Hann kveður ástandið hvíla þungt á mönnum og vera þeim erfitt.

Töpuðu frábæru samfélagi

„Það er bæði öll þessi óvissa og það að rífa sig upp frá þessu samfélagi sem þeir kunna svo vel við og er frábært. Þessu fylgja gífurleg útgjöld fyrir alla þá sem þurfa að standa í því að flýja Grindavík. Þetta eru bara ömurlegar aðstæður fyrir þetta fólk. Það er ekki bara að vera að tapa þessu samfélagi heldur er þetta líka gríðarlegt fjárhagslegt tjón fyrir alla Grindvíkinga,“ segir Valur skipstjóri sem nú er kominn í frí fram til 4. júní og önnur áhöfn tekin við keflinu á Hrafni.

„Nú sinna menn sínum áhugamálum eins mörg og misjöfn og þau eru og sinna fjölskyldu sinni, það er númer eitt, tvö og þrjú.“