Auðlindir Íslands eru margar. Ein þeirra gjöfulustu er hafið umhverfis 6.000 kílómetra strandlengju eyjunnar í norðri sem nýtur góðs af hafstraumum þar sem mætast skil hlýsjávar úr suðri og kaldsjávar úr norðri. Kjörin skilyrði til uppvaxtar sjávardýra af ýmsu tagi sem hetjur hafsins allt í kringum landið hafa nýtt sér til færa björg í bú. Ein þeirra er Ólafur Björn Þorbjörnsson skipstjóri og nú útgerðarstjóri á Höfn í Hornafirði.
„Ég fór fyrst á sjó ellefu ára gamall. Næstum 60 árum seinna fór ég að vinna í landi,“ segir Óli. Hann gerir út Sigurð Ólafsson SF 44 og sonur hans, alnafni langafa síns, Sigurður Ólafsson er skipstjóri. Óli man tímana tvenna, ekki síst hvað varðar humarveiðar á árum áður. Hann hefur líka sterkar meiningar þegar kemur að hruni humarstofnsins við Ísland. Óli er þó hvergi banginn hvað varðar framtíðarhorfur í íslenskum sjávarútvegi.
Einars þáttur ríka
Útgerð Sigurðar Ólafsson hefur átt tvo báta með þessu nafni. Sá fyrri var trébátur smíðaður í Danmörku sem Einari ríki Sigurðsson í Vestmannaeyjum átti en þeir eignast hann árið 1972. Báturinn hét þá Þerney KE 33. Útgerðin hafði ekki átt bátinn nema í tvo mánuði þegar eldur kom upp í honum í Hornafjarðarhöfn.
„Það brann allt fram í honum og það tók um hálft ár að gera við hann. Þetta var vont högg og við gátum auðvitað ekki borgað af honum. Heiðursmaðurinn Einar ríki kom með þá tillögu að við settum fyrstu greiðslurnar aftur fyrir allt saman. Þannig var það gert í þá daga. Einar sá sem var að það koma engir peningar ef ekki er farið út á sjó.“
Fyrst á sjó 11 ára
Óli var ellefu ára gamall þegar hann fór fyrst á sjó og svo 12 ára á síldveiðar á Akurey SF 52 austur og norður fyrir land. Þetta var sumarið 1961. Í framhaldinu var hann á snurvoð í tvö sumur. Hann fór á fyrstu vetrarvertíðina 1963. Hann var svo tvo vetur í stýrimannaskólanum og útskrifast þaðan 1969 og var síðan óslitið til sjós þar til hann settist kom í land 2017 og vinnur núna við útgerðina í landi.
Á þeim árum sem Óli var að hefja sinn sjómennskuferil voru humarveiðar að byrja frá Hornafirði. Þetta var upp úr 1960 og nóg var af humri. Hann fór fyrst á humar 1967 á bát sem hét Sævaldur og ári síðar á bát sem hét Ver en þá var hafís yfir öllu og var léleg humrveiði það ár. Svo var hann stýrimaður á Sigurfara 1969 og var þá aftur óhemju humarveiði.
114 tonn af humri upp úr sjó
„Við fengum 38 tonn af slitnum humri á Sigurfaranum 1969. Það er nálægt 114 tonn upp úr sjó. Allur kvótinn í dag er innan við 250 tonn. Næstu ár var líka nær undantekningarlaust mjög góð humarveiði. Ég byrjaði fyrst sem skipstjóri á humarbát 1971 á Gissuri hvíta. Mig minnir að við höfum fengið 17 tonn af skottum fyrstu þrjár vikurnar en þá bilaði hjá okkur og við vorum í slipp í fimm vikur. Það var alveg mokveiði og humarinn mjög stór. Við vorum að finna nýjar bleiður sem aldrei hafði verið dregið á fyrr. Við veiddum aðallega í kringum Tvískerin og einnig í Hornafjarðardýpi, Lóndýpi og Meðallandsbugt. Þetta voru helstu svæðin. En þegar búið var að drepa upp alla síldina 1968 þá héldu allar drulludollur sem flutu á humarveiðar. Ég hugsa að það hafi verið yfir 100 bátar á humri þegar mest var. Þetta voru bátar alls staðar af að landinu. Svona er þetta alveg fram undir 1980 þegar þeim bátum sem voru á humri fækkaði.“
Ofveiði
Óli segir að það hafi alltaf verið tekið of mikið af humri. Þó hafi komið ár sem lægð var yfir veiðunum. Það var til dæmis lítil humarveiði 1967 þegar ísinn lagðist úti fyrir austan- og suðaustanverðu landinu. Sjórinn var kaldur og eini humarinn sem fékkst var í Meðallandsbugt og fyrir vestan Vestmannaeyjar.
„Hérna á austursvæðunum var bara þorskur og ekkert nema þorskur sem gekk hingað suður eftir undan ísnum. Við komumst ekki út úr Hornafjarðarós í sennilega tvær vikur í maímánuði vegna íss. Ísinn lagðist upp að landi alveg vestur fyrir Ingólfshöfða.“
Óli segir að humarinn hafi verið ofveiddur og nú sé svo komið að lítil sem engin veiði er og það stórsjái á öllu humarmiðum. Veiðarnar hafi dregist stöðugt saman í ein tíu ár. Það séu fáir bátar eftir á humarveiðunum en þetta séu öflugir bátar og þeir stundi þessar veiðar með mjög stórum og þungum veiðarfærum.
Svæðin hreinsuð
„Það er mín skoðun að við séu endanlega að ganga frá humarstofninum. En það eru ekki allir sem samsinna því. Ég er alla vega alveg með það á hreinu að við höfum sjálfir gengið frá humarstofninum með ofveiði. Veiðarfærin og bátarnir eru alltof stórir og það er verið að djöflast á þessum bleiðum alltof lengi. Það er undarleg veiðistýring að leyfa allt að 50 metra löngum bátum með óheftur vélarafli að vera á þessum veiðum. Veiðarnar hefjast í apríl og það er ekki hætt fyrr en undir jól. Humarinn er á örlitlum svæðum úti á dýpunum og þar er djöflast á honum. Þessi rányrkja hefur farið fram með skipulegum hætti undanfarin ár. Það er byrjað í Lóndýpinu, svo er farið í Hornafjarðardýpið, þá Breiðamerkurdýpið og Skeiðarárdýpið og svo vestur úr. Svæðin eru bara hreinsuð. Það er auðvitað gott að vera á góðum og öruggum bátum við allar veiðar en veiðafærin verða að vera í samræmi við viðkvæman botn“
Óli segir að ef stofninn eigi að ná sér á strik á ný verði að minnka veiðarfærin. Humarinn heldur sig í holum og veiðarfærin grafa sig ofan í leðjuna og róta honum upp.
„Við á þessum minni bátum gátum ekki verið nærri humarskipunum og litlu bátarnir eru að týna tölunni. Þeir ráða ekki við sókn af þessu tagi. Það þarf örugglega að friða humarinn í tíu ár ef stofninn á að ná sér á strik. Nú hefur tveimur dýpum verið lokað fyrir öllum togveiðum. Þetta er annað árið sem Lóndýpið er lokað en nú eru menn á veiðum í Hornafjarðardýpi og Breiðamerkurdýpi og veiðin er mjög lítil.“
Úr 20 tonnum í 1,5
Síðast þegar Óli sendi bát sinn á humar fékkst um 4.500 krónur fyrir kílóið. Hann hefur verið seldur til veitingastaða á svæðinu. Hann fékk ekki úthlutað nema 1,5 tonni á yfirstandandi fiskveiðiári sem er mikið fall úr þeim 20 tonnum sem útgerðinni var úthlutað fyrir nokkrum árum og minnkað ár frá ári. Hefði hún fengið sömu úthlutun núna hefði það skilað útgerðinni um 80 milljónum króna.
Útgerðin á kvóta fyrir töluvert af meðafla sem hefur yfirleitt fengist í dýpunum. Á humarveiðum kemur ávallt talsverður meðafli eins og skötuselur, þorskur, ýsa og ufsi. Útgerðin átti lítið eftir af þorskkvóta sem er fljótur að klárast þegar farið er á humar. Veiðarnar myndu heldur ekki standa undir sér með leigukvóta fyrir meðaflanum.
Álíka verðmæti í meðaflanum
„En það hefur verið mjög gott verð á fiski í vetur og hefur ekki verið svo hátt í mörg ár. Það hefur haldist hátt en lækkaði þó eitthvað eftir páskana. Við höfum lagt allann fisk upp hjá fiskmarkaðnum og verið ánægðir með útkomuna.“
Óli kom í land 2017 og hefur verið að snúast í kringum um útgerðina í land i síðan. Hann hefur þó aðeins brugðið sér á sjó síðan. Hann fór einn humartúr 2018 og fengust þá fjögur kíló á togtímann úti á dýpunum. Það þótti honum heldur klént. Útgerð af því tagi standi ekki undir sér.
„Hitt var annað mál að við fengum alltaf meðafla og það voru álíka verðmæti í honum og humrinum.“

Netarallið góð viðbót
Sigurður Ólafsson SF var einn þeirra báta sem tóku þátt í netaralli Hafrannsóknastofnunar. Það var yfirstandandi þegar rætt var við Óla. Hann sagði rallið hafa gengið mjög vel. Báturinn dró net allt frá Meðallandsbugt og austur að Hvítingum og tók rallið um þrjár vikur með páskafríinu og var aflin úr því um 260 tonn og munar um minna. Óli segir þetta góða viðbót fyrir kvótalitlar útgerðir og sérstaklega þegar vel veiðist.
„Mér líst bara vel á framtíðina. Heimsfaraldurinn gengur yfir eins og allt annað. Það er svo sem lítið framundan hjá okkur fyrr en á nýju kvótaári. Eftir að við tökum þessi humarskott sem okkur er úthlutað leggjum við bátnum þar til í haust.
Sigurður Ólafsson SF er 60 ára gamalt stálskip, eitt það elsta í íslenska fiskiskipaflotanum. Hann smíðaður árið 1960 í Noregi fyrir Guðmund Runólfsson í Grundarfirði. Hann var seldur til Akraness og þaðan til Stykkishólms. Þar keypti útgerðin bátinn til Hornafjarðar árið 1979. Báturinn var svo lengdur og yfirbyggður í Þýskalandi árið 1987 svo hann hentaði betur til nótaveiða á síld. Framan af var verið á línu, netum, reknetum (síðar nót) og trolli á hverju ári en undanfarin ár hefur báturinn verið gerður út á net á veturna og svo humar og fiskitroll þess á milli. Báturinn er í góðu standi og honum verið vel sinnt alla tíð. Óli segir að ekki hafi dottið út róður út af biliríi á þessum bát.
„Við höfum alltaf verið mjög heppnir með vélstjóra og annan mannskap. Það eru alltaf sömu karlarnir þarna um borð og allt gengið eins og í sögu. Við erum tíu á honum á netunum en sjö á trollinu. Það má til gaman geta þess að þriðju ættliðirnir, tveir afastrákar Óla hafa verið í áhöfn og annar þeirra að ljúka stýrimannanámi og fær væntanlega að spreyta sig á því fljótlega. Áður fyrr voru við bara fimm á humrinum en undanfarið mörg ár höfum við verið sjö. Það gengur alltaf vel þegar allir koma heilir heim.“