Öldungaráð Landhelgisgæslu Íslands afhenti í síðustu viku Flugsafni Íslands á Akureyri þyrluna TF-LIF og hófst þar með formleg opnun sýningar á þyrlunni. Félagsskapurinn er fyrrverandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar og taldi félagið að þyrlan, sem er af gerðinni Super Puma, skipaði svo einstakan sess í björgunarsögunni að allt yrði að gera til að hún yrði varðveitt. TF-LIF var framleidd árið 1986 og var keypt árið 1995. Hún var í stanslausri þjónustu Landhelgisgæslunnar út árið 2019 og með henni urðu straumhvörf í björgunargetu stofnunarinnar.
Á því tímabili sem þyrlan TF-LIF var í notkun hjá Landhelgisgæslunni voru framkvæmd fjölmörg björgunarverkefni þar sem fólk var m.a. híft upp í þyrluna frá skipum, úr bátum beint úr sjó eða af landi. Að auki kom þyrlan að fjölda sjúkraflugs þar sem ekki var hægt að nota önnur tæki. Alls eru það 1.565 manns sem hefur verið bjargað eða flutt með þyrlunni á tímabilinu. Á meðal eftirminnilegra björgunarverkefna TF-LIF má nefna björgun áhafnar Dísarfells eftir að skipinu hvolfdi milli Íslands og Færeyja, björgun áhafnar Vikartinds er skipið var að reka upp í fjöru austan Þjórsár og björgun áhafnar fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar eftir að skipið hafði strandað á Meðallandsfjöru.
Gáfu skrokkinn og íhluti
Sænska fyrirtækið eX-Change Parts keypti þyrluna og tók helstu hluti úr henni, eins og gírbox, hreyfil og helstu mælitæki. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu frétt af áhuga Öldungaráðsins að koma þyrlunni á safn og ákváðu að skilja skrokkinn sjálfan eftir og gefa flugsafninu. Í framhaldinu aflaði eX-Change Parts sambærilegra ónothæfra íhluta í stað þeirra sem höfðu verið fjarlægðir og gáfu safninu. Kristján Vilhelmsson hjá Samherja bauðst til að sjá um flutning íhlutanna frá Brolange í Svíþjóð til Gautaborgar, Eimskip tók að sér flutning íhlutanna frá Svíþjóð til Íslands og ET-flutningar fluttu þyrluna í vagni landleiðina til Akureyrar. Allir þessir aðilar gerðu þetta án endurgjalds.
Málinu reddað
Þann 22. júní 1995 var þyrlunni flogið frá Marseille í Frakklandi áleiðis til Íslands. Í áhöfn hennar voru Páll Halldórsson yfirflugstjóri, Benóný Ásgrímsson flugstjóri, Jón Pálsson fluvirki og Einar Bjarnason flugvirki. Í erindi sem Benóný Ásgrímsson flugstjóri flutti við afhendingu þyrlunnar á Akureyri í síðustu viku sagði hann m.a.: „Tekin var næturhvíld á Stornoway í Skotlandi og þaðan flogið til Vestmannaeyja þar sem dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, og forstjóri LHG, Hafsteinn Hafsteinsson, komu um borð og voru með okkur síðasta spölinn til Reykjavíkur þar sem lent var kl. 15.00 þann 23. júní 1995. Þess má að lokum geta, að þegar ákveðið var að lenda í Vestmannaeyjum áður en komið var til Reykjavíkur kom upp smá vandamál þar sem ekki mátti lenda í Vestmannaeyjum sem fyrsta flugvöll þegar komið var frá útlöndum, vegna tollskoðuar. En hvað með það, dómsmálaráðherrann var á svæðinu þannig að þetta hlyti að reddast. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum var fenginn til að tollskoða, sem þá var Georg Kr. Lárusson, núverandi forstjóri LHG.“