,,Þerney hóf makrílveiðar í byrjun síðustu viku og Örfirisey tveimur dögum síðar. Veiðarnar hófust í Skerjadýpi en síðan færðu skipin sig austur í Háfadýpi og Grindavíkurdýpi. Framan af var makríllinn frekar smár en síðan fékkst stærri og betri makríll austar á veiðislóðinni,“ segir Steindór Sverrisson, útgerðarstjóri frystitogara HB Granda í samtali á vef fyrirtækisins.
Að hans sögn fékkst einnig íslensk sumargotssíld sem meðafli. Þerney var alls með um 250 tonn af makríl og 35 tonn af síld og afli Örfiriseyjar var 183 tonn af makríl og 31 tonn af síld. Auk þess voru bæði skip með bolfiskafla sem fékkst áður en makrílveiðarnar hófust. Hvort tveggja makríll og síld eru heilfryst um borð í togurunum.
Þerney og Örfirisey munu sjá um að veiða 4.200 tonna makrílkvóta HB Granda í frystitogaraflokknum á þessari vertíð.
Sjá nánar á vef HB Granda.