„Vinnan við mælinguna gengur vel en ég get ekkert tjáð mig um magnið, hvort við séum að sjá mikið eða lítið,“ segir Geir Zoëga, skipstjóri á uppsjávarskipinu Polar Ammassak sem hefur tekið þátt í loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar.
Auk Polar Ammassak hóf áhöfn Barða NK leit að loðnu fyrir austan land á fimmtudaginn í síðustu viku. Vegna veðurs var það hins vegar ekki fyrr en á mánudagskvöldið sem hin skipin tvö í leiðangrinum, rannsóknaskipið Árni Friðriksson og Heimaey VE, gátu hafið sinn hluta leitarinnar fyrir norðan land.
Bræla tafði leitarskipin fyrir austan land í um einn og hálfan sólarhring þar til um klukkan tíu á mánudagskvöld. Héldu þau leitinni þá áfram og áttu um hádegisbil í gær eftir um einn til tvo sólarhringa til að ljúka yfirferð á sínum svæðum.
Þeir reikna þetta út
„Ég þori ekkert að ímynda mér neitt,“ svarar Geir spurður hvort hann geti ímyndað sér af því sem nú þegar sé komið í ljós hver árangurinn af leiðangrinum geti orðið. Hann segir að það muni starfsmenn Hafrannsóknastofnunar skera úr um.
„Þeir reikna þetta út fyrir okkur og við fáum allir að vita þetta þegar leiðangurinn er búinn,“ segir Geir.
Fyrir utan bræluna segir Geir enga erfiðleika hafa komið upp í leiðangrinum, hvorki hvað varði framkvæmd mælinganna eða annað.
Alltaf gaman að hjálpa
„Enda höfum við gert þetta áður, að minnsta kosti á þessu skipi,“ segir Geir sem kveðst hafa tekið þátt í fimmtán til tuttugu loðnuleiðöngrum. Þessi vinna sé yfirleitt skemmtileg.
„Mér finnst alltaf gaman að hjálpa til við þetta. Það er líka gaman að finna loðnulyktina,“ segir Geir sem kveður loðnuna sem nú sjáist vera fallega – þótt hann vilji ekkert segja um magnið.
Aðstæður til leitar eru betri nú heldur en í janúar í fyrra þegar ísröndin var nær landi og veður verri. Þá var Geir á leitarsvæðinu fyrir vestan. „Nú erum við á hefðbundnari loðnuslóð,“ segir hann.
Skrítið ef aftur yrði loðnubrestur
Um borð í veiðiskipunum eru auk áhafnarinnar þrír starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun. Þeir vinna úr sýnum og bergmálsupplýsingum sem er meðal þess sem leggja mun grunn að ráðgjöf stofnunarinnar.
„Það yrði náttúrlega frekar fúlt fyrir alla sem tengjast þessum veiðum og þessar sjávarbyggðir sem treysta á þetta,“ segir Geir um þann möguleika að tvö ár í röð verði engin loðnuvertíð eins og raunin varð fyrir nokkrum árum. Hann telji að það myndi gefa tilefni til umhugsunar ef tveggja ára loðnubrestur verði aftur.
„Það væri svolítið skrítið og þyrfti þá að rannsaka af hverju það gerist, hvort þetta er helvítis hvalurinn – ég veit það ekki,“ segir Geir sem reyndar kveðst ekki enn hafa séð mikið til hvala í leiðangrinum þótt hann sé úti um allt. „Hvalurinn hlýtur að vera fremst í göngunni, við erum kannski ekki búnir að finna fremsta hlutann.“
Vilja ekki missa af neinu
Búast má við að Barði NK og Polar Ammassak ljúki sínum þætti leiðangursins í dag eða í kvöld.
„Þetta hefur verið ágætis yfirferð og þétt. Þeir vildu fara svolítið þétt enda viljum við ekki missa af einhverju ef það er eitthvað einhvers staðar,“ segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða.
„Við höfum séð loðnu víða, misþétt. Þessi fiskur sem við erum búnir að taka prufur úr er bara stór og fínn,“ segir Þorkell um loðnuna sem sést hefur. Hann geti ekkert sagt um magnið.
Tökum því sem taka ber
„Það verður bara að koma í ljós hvað þetta reiknast mikið saman,“ segir Þorkell um væntanlegar niðurstöður. Þær muni eðlilega ekki liggja fyrir fyrr en nokkrum dögum eftir að leiðngursskipin fyrir norðan land hafa lokið sinni yfirferð.
„Það væri náttúrlega alls ekki gott, það segir sig sjálft,“ svarar Þorkell um þann möguleika að ekki verði unnt að gefa út loðnukvóta annað árið í röð
„Við tökum því sem taka ber en ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýnn. Á hinn bóginn er þetta eitthvað sem við ráðum ekki við. Og ef þetta verður á hinn veginn er það bara þannig.“