„Veiðar gengu vel hjá okkur í sumar,“ segir Gunnar Torfason, hjá Tjaldtanga ehf. sem gerir út rækjubátinn Leyni ÍS 16. Rækjuveiðunum lauk nú um nýliðin mánaðamót.
„Aflabrögðin voru góð en úthlutunin var ansi lítil. Það er alveg innstæða til aukinnar úthlutunar,“ segir Gunnar sem kveðst bjartsýnn á auknar aflaheimildir.

„Rannsóknir munu fara fram á Þórunni Þórðardóttur bæði í Arnarfirðinum og Ísafjarðardjúpinu núna í október. Miðað við aflabrögð í Arnarfirði þá eru horfurnar mjög góðar,“ segir Gunnar sem segir það sína skoðun að úthlutunin sé helmingi of lág. „Hún mætti vera tvisvar sinnum meiri miðað við núverandi ástand.“
Spurður um gæði rækjunnar úr Arnarfirði segir Gunnar hana vera sæmilega. „En hún er náttúrlega ekki jafn stór og við erum til dæmis að fá í Kolluál við Snæfellsnes,“ segir hann. „Við vorum að veiða þar í vor og það gekk ágætlega. Það er gott útlit þar líka. Þar mætti líka vera meiri úthlutun en það svæði verður ekki rannsakað fyrr en næsta vor.“
Þrátt fyrir góða veiði í sumar segir Gunnar blikur á lofti hjá rækjuútgerðunum sem þurfi að takast á við mikinn samdrátt. Rækjuveiðar hafi nú verið bannaðar í tvö ár í Ísafjarðardjúpi sem hafi verið aðal starfssvæði Tjaldtanga.
Sé mismunað af ráðherra
„Vegna aflabrests í rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi þá hefur bótum í bolfiski verið úthlutað en hæstvirtur innviðaráðherra, Eyjólfur Ármannsson, er að draga lappirnar í úthlutun. Þetta framtaksleysi er að hafa neikvæð áhrif á rækjuútgerðirnar sem eru að berjast í bökkum vegna samdráttar í úthlutun aflaheimilda í rækju. Innviðaráðherra á að styðja þær útgerðir sem berjast enn í rækjuveiðunum,“ segir Gunnar.
Að sögn Gunnars var við úthlutunina núna 1. september, úr svokölluðum 5,3 prósent potti, eingöngu úthlutað til Byggðastofnunar. „Að mínu mati er það mismunun að úthluta ekki til annarra eins og til okkar sem erum með skel- og rækjubæturnar.“
Rækjuna segir Gunnar vera unna á Bretlandsmarkað í rækjuverksmiðjunni Kampa á Ísafirði. Hún sé starfrækt árið um kring og veiti um fjörutíu manns atvinnu.
„Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld styðji við útgerðina hjá okkur,“ segir Gunnar og minnir á að í árdaga kvótakerfisins hafi skel- og rækjuskip látið frá sér umtalsverðan hluta botnfiskveiðiheimildanna þannig að rækjuskip hafi ekki fengið úthlutað í bolfiski á grundvelli aflaheimilda heldur hafi sætt frádrætti vegna annarra veiða.
Haldið velli í áratugi vegna rækjubótanna
„Þegar aflahlutdeild fiskiskipa var varanlega fest í sessi árið 1990 tók sú ákvörðun mið af skiptingu samkvæmt reglugerðum sem settar voru á árunum 1984 og 1985,“ segir Gunnar. Skelfiskveiðiskip hafi verið skert að jafnaði um 35 prósent af botnfiskveiðiheimildum og rækjuskip að jafnaði um 10 prósent.
„Vegna skerðinga þessara skipa jókst aflamark togara um 10 prósent umfram það sem þeir hefðu annars fengið samkvæmt hreinni aflareynslu. Ástæðan fyrir skerðingunum var í upphafi tilgreind sem jöfnunaraðgerð vegna bágrar stöðu þorkstofnsins,“ segir Gunnar. Úthlutun á skel- og rækjubótum hafi verið komið á um síðustu aldamót vegna aflabrests í þeim tegundum.
„Rækjubætur til útgerða í Ísafjarðardjúpi hafa gert það að verkum að útgerðirnar á svæðinu hafa haldið velli í áratugi. Rækjubæturnar hafa reynst vel sem sveiflujöfnunartæki þegar rækjustofnar eru í niðursveiflu,“ undirstrikar Gunnar Torfason.