Kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið Icewater Seafoods hyggur á allsherjar endurnýjun á vinnslubúnaði sínum. Litið er til tækjabúnaðar íslenskra fyrirtækja í viðleitni til að keppa á markaði fyrir þorskafurðir.

Fyrirtækið er það stærsta í Norður-Ameríku sem vinnur úr heilum hausuðum og frystum fiski, enda langt síðan að veiðar á villtum þorski hættu að standa undir landvinnslu þar ytra. Til að viðhalda þeirri stöðu, og styrkja hana enn, er áætlað að skipta út gömlum búnaði fyrir nýjan í verksmiðjunni sem hefur verið rekin í tæpa fjóra áratugi.

Icewater ætlar að tryggja sér 12 milljónir bandaríkjadala til verksins – eða rúmlega 1,2 milljarða íslenskra króna. Þar er litið til bæði opinberra styrkja og annarra fjármögnunarleiða. Takmarkið er skýrt segir forstjórinn Alberto Wareham í viðtali við Undercurrent News. Það á að auka vörugæði með tilliti til þróunar markaða með hvítfisk.

5.000 tonn
Icewater vinnur úr fimm þúsund tonnum af hráefni á ári. Níu af hverjum tíu tonnum fara á markað í Evrópu, sem byggir á samvinnu við smásölurisann Mark & Spencer með sínar þúsund verslanir. Þá stöðu taka forsvarsmenn Icewater alvarlega og ein megin rökin fyrir því að endurnýja búnað fyrirtækisins byggir á því að setja sig í spor viðskiptavinarins. Wareham telur að viðskiptavinurinn eigi að sjá það sama á Nýfundnalandi og annars staðar þar sem þorskur er unninn samkvæmt kröfum tímans – og nefnir Noreg sem dæmi. Hins vegar er tækjabúnaðurinn sem Icewater ætlar að kaupa ekki frá Noregi kominn heldur frá tveimur íslenskum fyrirtækjum; Marel og Skaganum 3X auk þýska fyrirtækisins Baader. Það er ekki takmark í sjálfu sér að framleiða meira, segir Wareham þó sagan geymi tíma þar sem Icewater vann úr helmingi meira af hráefni en það gerir núna, nokkuð sem vandalaust væri að gera aftur, að hans sögn.

Lifðu af
Umrædd verksmiðja Icewater var byggð í Arnold‘s Cove í Nýfundnalandi árið 1979, þá undir merkjum fyrirtækisins High Liner Foods. Verksmiðjan var ein fárra sem lifðu það af þegar stjórnvöld sáu þá einu leið færa að banna alla veiði á þorski úr hinum áður risavaxna þorskstofni sem sögulega hafði verið veitt úr innan lögsögu Nýfundlendinga. Eins og þekkt er var sá stofn ofveiddur svo harkalega að árið 1992 var hann gott sem horfinn með öllu og allsherjarbann við þorskveiðum sett á við austurströnd Kanada. Nú er talið að hann sé að hjarna við og áform um 10.000 tonna veiði á þessu ári, sem er reyndar brotabrot af sögulegum ársafla úr stofninum. Tekin eru dæmi í skýrslum um hrun stofnsins að í heimildum megi sjá að á milli áranna 1647 og 1750 hafi verð veidd átta milljónir tonna úr stofninum. Stór verksmiðjuskip úr fjölþjóðlegum flota tóku sama magn síðustu fimmtán árin fyrir veiðibannið 1992.

Ráðgjöf
Matís sagði frá því á dögunum að tveggja daga vinnufundur var haldinn í bænum Gander á Nýfundnalandi var haldinn í nóvember á síðasta ári, þar sem til umfjöllunar var hvernig þeir geti best undirbúið sig fyrir auknar þorskveiðar. Í frétt Matís kom fram að það hafa orðið litlar breytingar á fiskveiðiflotanum og vinnslunni frá því veiðibannið tók gildi og því er greinin alls ekki reiðubúinn fyrir auknar veiðar.

Á vinnufundinum, sem sóttur var af um 200 manns, var fjallað um hvernig best verði staðið að uppbyggingu greinarinnar. Meðal annars voru fengnir til sérfræðingar frá Noregi og Íslandi til að kynna stöðu mála í þeirra veiðum, vinnslu og markaðssetningu. Auk þess voru kallaðir til ýmsir sérfræðingar í markaðssetningu og greiningu á mörkuðum, til að gefa góð ráð. Þeir hvöttu Nýfundlendinga til að líta ekki á aðrar þorskveiðiþjóðir sem samkeppnisaðila, það sé hagur allra að þeir nái að framleiða þorskafurðir í hæstu gæðum og að það muni í raun styrkja og stækka markaðinn fyrir afurðir allra framleiðenda. Muni Nýfundlendingar hins vegar ekki standa undir sinni ábyrgð að framleiða þorskafurðir af réttum gæðum muni það mögulega hafa slæm áhrif á markaðinn fyrir aðrar þorskveiðiþjóðir.

Þessi sýn virðist falla mjög að hugmyndafræði forsvarsmanna Icewater, og má líta til viðleitni þeirra í því samhengi. Mikið er undir enda vinna 210 manns hjá fyrirtækinu.

Wareham segir í viðtalinu að Icewater eigi engan annan kost en að fjárfesta, enda séu þeir í samkeppni við Íslendinga og Norðmenn á mörkuðum þar sem hröð endurnýjun og tæknivæðing fiskvinnslunnar sé löngu hafin af krafti.

Fyrsti kúnni Marel
Í viðtali við Fiskifréttir segir Alberto Wareham, framkvæmdastjóri, að Icewater hafi verið fyrsti viðskiptavinur Marel í Kanada, og forsvarsmenn fyrirtækisins hafi þess vegna farið oft til Íslands til að kynna sér nýjunar.

„Að okkar mati leiða Íslendingar tækniþróun í hvítfiskvinnslu eftir að flökun sleppir. Flökunar- og roðdráttarvélar höfum við keypt frá Baader, en allt annað í verksmiðjunni okkar er frá Marel," segir Alberto.