Sveitarstjórn Húnabyggðar kveðst hafna áformum um efnistöku úr áreyrum sunnan við bæinn Stafn ofarlega í Svartárdal og beinir því til Landsnets að við framkvæmdir vegna Blöndulínu verði tryggt að engin efnistaka verði úr virkum farvegi vatnsfalla, það er að segja í og/eða við straumvatn.
Þetta kemur fram í umsögn Húnabyggðar til Skipulagsstofnunar vegna áforma Landsnets.
Laxar á svæðinu hafa átt undir högg að sækja
„Húnabyggð bendir á umsögn Hafrannsóknarstofnunnar sem mælir ekki með efnistöku úr virkum farvegi vatnsfalla og hvetur til að leitað sé efnistöku utan þeirra. Umrætt vatnasvæði hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár hvað varðar afkomu laxfiska og allar framkvæmdir sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki vatnasvæðisins eru óæskilegar að mati Húnabyggðar,“ segir í bókun sveitarstjórnar vegna málsins.