Fyrirsögnin er tekin úr hádegisfréttum RÚV þann 14. janúar sl. Þar var fjallað um viðskipti með loðnu á skiptimarkaði Fiskistofu. Furðu sætti að aðeins hafi fengist 1.078 tonn af þorski í skiptum fyrir 35 þúsund tonn af loðnu.
Hvert fara 5,3%in
Í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um að áður en heildarafla hverrar kvótabundinnar tegundar er úthlutað á skip samkvæmt hlutdeild hvers og eins skuli haldið eftir 5,3% af hverri tegund. Þeim heimildum er síðan skipt til eftirfarandi þátta:
-
Strandveiðar
-
Línuívilnun
-
Byggðakvóta til byggðarlaga sem úthlutað er á skip – almennur byggðakvóti
-
Byggðakvóta til Byggðastofnunar sem úthlutað er á skip – sértækur byggðakvóti
-
Skel- og rækju uppbætur sem úthlutað er á skip
-
Frístundaveiðar
Þar sem flestar af þeim tegundum sem koma í 5,3% pottinn eru ekki veiddar af flokkunum ofangreindum kallar Fiskistofa eftir þeirra aðaltegund, þorski, í skiptum fyrir þær.
Það voru því sannarlega gleðitíðindi þegar ákveðið var að leyfilegur heildarafli í loðnu var ákveðinn 662 þús. tonn. Samkvæmt ígildastuðli fiskveiðiársins, 0,36, hefðu 5,3% af loðnunni átt að gefa 12.632 tonn. Vel á minnst - fyrir ári fengust 732 tonn af þorski í skiptum fyrir 1.066 tonn af loðnu – stuðull 0,69.
LS bjóst þó við að það yrði eitthvað minna, 6 – 7 þúsund tonn væri þó nokkuð öruggt. Gengi það eftir yrðu nægjanlegar heimildir til að tryggja 48 daga til strandveiða og línuívilnun allt fiskveiðiárið.
Klúður – vanmat aðstæðna
Sjávarútvegsráðuneytið, nú Matvælaráðuneytið ákvað að Fiskistofa skyldi auglýsa strax eftir þorski í skiptum fyrir 35 þúsund tonn af loðnu. Skemmst er frá því að segja að aðeins fengust 1.078 tonn af þorski – stuðull 0,0311. Þátttakendur, Eskja lét frá sér 932 tonn af þorski og fékk í staðinn 30.000 tonn af loðnu og Síldarvinnslan 146 tonn af þorski og fékk 5.089 tonn af loðnu. Þar sem hér er um tilboðsmarkað að ræða er rétt að vekja athygli á að Eskja flutti samdægurs helming loðnunnar á skip í eigu Loðnuvinnslunnar hf. Annars vegar í skiptum fyrir 233 tonn af þorski og hins vegar með greiðslu kr. 10 pr. kg – 75 milljónir. Verðstuðull í viðskiptum Eskju og Loðnuvinnslunnar var sá sami og á skiptimarkaðinum, 0,0311.
Það klúður sem átti sér stað hjá stjórnsýslunni hefur sett strandveiðar 2022 í algert uppnám. Ferillinn var í stuttu máli þessi: Ráðuneytið óskaði eftir því við Fiskistofu að auglýsa eftir þorski í skiptum fyrir loðnu. Þá var vertíðin nýhafin, veiðar gengu illa og allur aflinn fór í gúanó. Ekki er að merkja á samskiptunum að Fiskistofa hafi bent ráðuneytinu á að tímasetning útboðsins væri óheppileg. Kannski óþarfi þar sem stofunni var heimilt að birta tilkynningu um að engu tilboðanna hefði verið tekið og því yrði auglýst að nýju.
- Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Fiskistofa samþykkti hins vegar tilboðin og tilkynnti það ráðuneytinu. Samtímis var ráðherra upplýstur um að ekki væru nægilegar heimildir í þorski til að standa við þau 10 þúsund tonn sem gefið hafði verið út til strandveiða. Ráðherra sá þá þann kost einan í stöðunni að breyta áður útgefinni reglugerð og lækka þorskheimildir til strandveiða í 8.500 tonn. Það er kaldhæðnislegt að ákvörðunin var tekin á dimmasta degi ársins hinn 21. desember.
Framtíð strandveiða í húfi
Verði ekkert að gert vantar 2.671 tonn upp á það sem kom í hlut strandveiðibáta í fyrra. Skerðing upp á 24%. Afleiðingarnar munu að öllum líkindum leiða til stöðvunar strandveiða upp úr miðjum júlí, miðað við svipuð aflabrögð og fjölda báta á síðasta ári.
LS hefur átt fund með matvælaráðherra um málefnið og bent á nauðsyn þess að framkvæmd reglna um skiptimarkað tryggi að aflaheimildir sem þaðan komi séu nægjanlegar til þeirra verkefna sem þeim eru ætlaðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda