..Við teljum að makríllinn sem íslensk skip veiða hér fyrir vestan land sé að koma  sunnan og vestan úr hafi, jafnvel frá Bandaríkjunum og Kanada. Það kemur heim og saman við legu Golfstraumsins og sömuleiðis við kort norskra og annarra evrópskra vísindamanna. Evrópski makríllinn gengur varla svona vestarlega eins og þessi makríll gerir, “ segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf. í samtali við Fiskifréttir.

,,Makríllinn sem fæst hér vestan við landið og milli Íslands og Grænlands er stór og fallegur og öðru vísi en sá sem veiðist austan við Ísland,“ bætir Guðmundur við, en tveir frystitogarar á hans vegum hafa verið að makrílveiðum í grænlensku lögsögunni að undanförnu, eins og fram kemur í annarri frétt hér á vefnum. Þar segir að íslensk stjórnvöld hafi gefið út reglugerð sem banni íslenskum skipum þessar veiðar eftir að núverandi veiðiferðum sé lokið.

,,Við fengum þessa reglugerð ekki í hendur fyrr en seinnipartinn í gær og eigum eftir að skoða betur hvað hér er á ferðinni. Ég hélt satt að segja að okkur Íslendingum skorti erlendan gjaldeyri. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að þessar veiðar gætu styrkt samningsstöðu Íslands í makríldeilunni, ég tala nú ekki um ef það fæst staðfest að hér við land séu tveir makrílstofnar,“ sagði Guðmundur.