Útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða hefur aldrei verið hærra en á síðasta ári en á sama tíma hafa fiskimenn orðið fyrir 2,2 milljarða (42 milljarða ISK) tekjuskerðingu, segir í frétt á vef norska ríkissjónvarpsins.

Við þennan samanburð verður þó að hafa í huga að það er eldislaxinn norski sem skapar mestar útflutningstekjur.

Veltan hjá sölusamlögum fiskseljenda var á síðasta ári 14,6 milljarðar króna (276 milljarðar ISK) á móti 16,8 milljörðum árið 2012  samkvæmt samantekt Fiskeribladet/Fiskaren.

Það eru einkum tveir þættir sem ráða því að tekjur fiskimanna hafa lækkað. Annars vegar mikið verðfall á þorskafurðum á mörkuðum erlendis sem kemur að fullum þunga niður á fiskverði. Hins vegar bæði verðlækkun og kvótaminnkun á norsk-íslenskri síld.