Verulegur tekjusamdráttur verð fyrstu sex mánuði ársins hjá Vestmannaeyjahöfn. Tekjurnar voru 178 milljónir króna en rekstrargjöld utan fjármagnsliða 186 milljónir. Niðurstöðurnar voru lagðar fram á fundi framkvæmda- og hafnarráðs.
Áætlun ársins 2020 gerði ráð fyrir að tekjur á tímabilinu yrðu 220 milljónir og gjöld um 180 milljónir. Ljóst er að tekjur eru verulega undir væntingum sem helgast að mestu vegna minni umsvifa við höfnina en gert var ráð fyrir. Einnig eru útgjöld meiri en gert var ráð fyrir. 14 milljóna króna kostnaður varð vegna óveðursins í febrúar vegna Blátinds og tjóns á mannvirkjum.
Í niðurstöðu ráðsins lýsir ráðið yfir miklum áhyggjum af rekstrarlegri stöðu Vestmannaeyjahafnar og ljóst er að grípa þarf til aðgerða. Ráðið felur framkvæmdastjóra í samráði við formann ráðsins að leggja fram tillögur til að mæta tekjubresti.
Ráðið fjallaði einnig um þörf á endurnýjun löndunarkrana á Edinborgarbryggju. Kostnaður við nýjan löndunarkrana sé um 10 milljónir með uppsetningu.
Einnig var tekið fyrir ástand stálþilja á Básaskersbryggju. Fram kom að þörf er á viðgerðum og endurnýjun stálþils að hluta.