Það er dauflegt um að litast á hafnarsvæðinu í Grindavík þessa dagana á hávertíð. Það eru 20 mínútur á miðin, bullandi veiði á feitum vertíðarfiski en bátarnir landa flestir annars staðar. Lágmarks starfsemi er hjá Þorbirni við söltun og í ferskfiskvinnslu hjá Einhamri. Stakkavík lætur Nýfisk í Sandgerði vinna megnið af sínum afla. Og Vísir vinnur saltfisk í Helguvík. Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri segir útlitið ekki bjart og tekjur þessarar áður fimmtu stærstu fiskihafnar landsins hafa hrunið.

Staðan ekki björt

Staðan er alls ekki björt. Samkvæmt nýju hættumati Veðurstofu Íslands er mikil hætta nú talin á eldgosi á hættusvæði 3, þar sem Sundhnúksgígaröðin er. Kvikumagnið undir Svartsengi nálgast sömu mörk og í aðdraganda fyrri gosa, segir í hættumatinu. Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara og líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra Skógfells og Hagafells.

Landað í Grindavíkurhöfn fyrir helgi.
Landað í Grindavíkurhöfn fyrir helgi.

Á sama tíma berjast heimamenn við að halda starfsemi þessa öfluga sjávarpláss gangandi. Sigurður hafnarstjóri segir að menn hafi verið að reyna að sparka þessu í gang en svo gerði brælu í byrjun vikunnar þannig að það var rólegt yfir þegar rætt var við hann. Kalda vatnið kom á fyrir helgi en var ekki nothæft í raun fyrr en núna þegar sýni bárust úr gerlaræktun. Það sé besta mál fyrir fiskvinnsluna og skipin að vera komin með heitt og kalt vatn.

Tvær landanir voru í Grindavík á sunnudag. Vésteinn GK landaði tvisvar og Óli á Stað einu sinni. Og þetta er boltafiskur. Megnið af afla Stakkavíkur er trukkað yfir til Sandgerðis þar sem Nýfiskur, fiskvinnsla í eigu Nesfisks, vinnur hann fyrir útflutning til viðskiptavina Stakkavíkur samkvæmt samningi fyrirtækjanna tveggja.

Hávertíð en …

„Það er hávertíð en ég hef áður séð meira líf hérna við höfnina. Núna landa bátar Gjögurs, Áskell og Vörður, og Grindavíkurbátarnir Páll Jónsson, Valdimar og Jóhanna Gísladóttir, allir í Hafnarfirði. Á þessum árstíma í eðlilegu árferði væru þeir allir að landa hérna og allur floti minni bátanna líka, meira eða minna. Það er vont fyrir höfnina, svæðið og þjónustuna í kringum sjávarútveginn að missa þetta allt. En við höldum í vonina um að það fari að sljákka í jarðeldunum eða þá að unnt verði að lifa með þeim. Það geti orðið full keyrsla á öllu á milli atburða en það eru kannski bara draumórar. En ég held að menn ætli að láta reyna á þetta og sjá aðeins hvað setur. Kannski kemur að þeim tímapunkti að þetta sé fullreynt. Staðan er þó misjöfn hjá fyrirtækjunum. Sumir vilja berjast áfram í þessu eins lengi og hægt er. Sjálfum finnst mér of snemmt að afskrifa starfsemina hér. Höldum lífi í þessu núna og höldum vertíðinni í gangi. Tíminn leiðir svo í ljós hvernig endanlega fer,“ segir Sigurður.

Það eru ekki nema 20 mínútur á miðin eftir hrognafullum vertíðarfiski en bátarnir landa flestir annars staðar.
Það eru ekki nema 20 mínútur á miðin eftir hrognafullum vertíðarfiski en bátarnir landa flestir annars staðar.

Landaður afli 476 tonn það sem af er árinu

Grindavík hefur mörg undanfarin ár verið önnur til þriðja stærsta bolfiskhöfn landsins. Verðmætasköpunin er þó sennilega meiri hlutfallslega en í höfnum þar sem uppsjávarafli vegur þyngra í lönduðum afla. Undanfarin ár hafa borist á land á bilinu 30-40 þúsund tonn af slægðum bolfiski og hliðarafurðum um Grindavíkurhöfn. Hún var í sjötta sæti yfir aflaverðmæti á landinu. En nú er staðan svo sannarlega önnur. Fyrstu tvo mánuði ársins eru landanir 12 talsins. Landaður afli er 476 tonn. Fyrstu tvo mánuði ársins 2023 voru landanir 202 talsins og landaður afli 4.583 tonn.

„Tekjur hafnarinnar eru engar. En það er ekki bara höfnin heldur líka fiskmarkaðurinn og öll þjónustan í kringum þetta. Það blæðir öllu út. Þetta er mikið högg fyrir alla þjónustuna og höfnina. En við höldum í vonina.“