Tekjur í sjávarútvegi urðu 247 milljarðar á síðasta ári, EBITDA-framlegðinn varð 53 milljarðar og hagnaðurinn 27 milljarðar. Fyrirtækin greiddu 11,3 milljarða í veiðigjöld til ríkisins og 12,3 milljarða í arð til eigenda sinna.

Þetta kemur fram í gagnagrunni Deloitte sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í gær. Í grunninum eru rekstrarupplýsingar frá nærri 100 aflamarksfélögum. Samtals nemur hlutdeild þeirra 92 prósentum af heildarúthlutun í þorskígildinum.

„Tekjurnar eru að aukast og framlegðin einnig,“ segir Jónas Gestur Jónasson hjá Deloitte, sem hefur tekið saman nokkrar helstu lykiltölur úr gagnagrunninum fyrir árið 2018.

„Heildaraflinn jókst um sjö prósent á milli ára, en þá verðum við að hafa í huga að aflinn var mjög lítill í janúar og febrúar 2017 vegna sjómannaverkfallsins.“

Allir hóparnir í sjávarútvegi eru að gera það betur, hvort sem litið er til blandaðra uppsjávar- og botnfiskfélög, botnfiskútgerð og vinnslu saman, eða botnfiskútgerð án vinnslu. Framlegð allra þessara flokka hækkar milli ára og var á bilinu 19 til 24 prósent.

Gengisveiking hjálpaði

Hann segir verkfallið hafa haft töluverð áhrif á framleiðnina. „Svo hjálpaði mikið til að gengið byrjaði að veikjast í september og október 2018. Kostnaðarliðir eru samt að hækka í sjávarútveginum. Launavísitalan hækkaði um 6 prósent svo launakostnaður er að hækka. Veiðigjöld hafa aldrei verið eins há. Þau voru 11,3 milljónir á árinu 2018.“

Skuldastaða fyrirtækjanna hækkaði úr 362 milljörðum árið 2017 upp í 389 milljarða árið 2018, en á móti kemur að hlutfall skulda á móti EBITDA-framlegð lækkaði úr 9 prósentum í 7,3 prósent.

Þá hefur bókfært eigið fé hækkað jafnt og þétt á hverju ári síðan 2012, og var komið upp í 276 milljarða á árinu 2018.

„Það er vegna þess að það hefur verið ágætis hagnaður á árunum og því hefur eigið fé hækkað töluvert mikið. Sjávarútvegurinn er orðinn mjög stöndugur.“

Jónas segir að í sjálfu sér komi ekkert sérstaklega á óvart í tölunum þetta árið, en hann hefur árlega tekið saman tölur sem þessar og kynnt þær á Sjávarútvegsdeginum.

„Það er held ég bara ágætis taktur í þessu og fjárfestingar hafa haldið áfram. Á árunum 2014 til 2018 voru þær að meðaltali 22 milljarðar á ári. Það er í þessu eins og öðru að menn þurfa að halda áfram að fjárfesta til að standast samkeppni við útlönd.“