Lengi hefur verið ljóst að helmingur alls þess fiskmetis sem heimsbyggðin leggur sér til munns er alinn í sjó eða á landi. Fiskur sem er veiddur villtur mun vart bæta miklu við og því mun hlutfallsleg aukning fiskmetis frá eldi aðeins aukast á komandi árum. Í ljósi þess er glímt við þá áleitnu spurningu hvað á að gefa þessu gríðarlega magni eldisfisks að éta. Sjálfbærni er þar lykilorðið en fjölmargt kemur til greina.

Norska Hafrannsóknastofnunin segir fjölmargt koma til greina sem álitlegar matarholur fyrir eldisfisk. Sérstaklega eru skordýr nefnd til sögunnar enda búin að sanna sig sem hráefni til fóðurgerðar. Einnig er kræklingur nefndur til sögunnar sem og burstaormar, sem mikið er af þar sem aðstæður eru réttar í hafinu. Allt er þetta nefnt í rannsóknum eldisfyrirtækjanna sjálfra og vísindamanna sem leita lausna fyrir eldið hvað varðar hráefni sem gefur góðan fisk með ásættanlegum umhverfisáhrifum.

Hringrás

Eitt er sérstaklega til skoðunar og lítur að því að nýta fóður sem fer til spillis, og jafnframt skít sem frá eldisfiskinum kemur til fóðurgerðar. Sem sagt: Hringrásarkerfi. Slíkt er talið koma fiskeldisbændum vel á margan hátt. Spor greinarinnar verða grænni og umtalsvert sparast af peningum. Ekki síst er um ímyndarmál að ræða, en af nógu er að taka þar sem gagnrýni á fiskeldi er víða hörð.

Fóður sem nýtt er til sjókvíaeldis á laxi hefur gjörbreyst á tiltölulega stuttum tíma. Áður var fóðrið að stórum hluta framleitt úr villtum fiski, þ.e. lýsi og fiskimjöli. Þessu hefur að stærstum hluta verið skipt út fyrir hráefni úr jurtaríkinu; repjuolíu og sojabaunum. Þannig inniheldur fiskeldisfóðrið 70 til 80 prósent hráefna úr jurtaríkinu sem er gagnrýnt fyrir þá augljósu staðreynd að til kemur samkeppni við aðrar vörur til manneldis sem byggja á þessum hráefnum og eru ekki ótæmandi auðlind.

Ef sátt á að nást um stóraukið fiskeldi þarf að finna uppsprettur hráefna sem að öðrum kosti lægju að stórum hluta óhreyfð.

Eitt og annað spennandi

Svokallaðar miðsjávartegundir er að finna á milli 200 og þúsund metra dýpi í hafinu. Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir til veiða á þessum tegundum, en með misjöfnum árangri. Vísindamenn vinna auk þess að stofnmati á þessum fjölmörgu tegundum lífvera sem undir þetta samheiti falla. Er það trú margra þeirra, sem og margra annarra að þar sé að finna uppsprettu hráefnis sem gæti nýst til fóðurgerðar og til vinnslu til manneldis.

Það sama má segja um þörunga. Vinnsla þeirra til manneldis eða fóðurgerðar fyrir skepnur og menn eru vaxtarbroddur víða um heim. Vinnsla þeirra er í ýmsu erfið en notagildið er óumdeilt.

Þá er kræklingur talinn henta til fóðurframleiðslu fyrir eldisfisk enda næringargildið mikið. Hvað Noreg varðar þá eru möguleikar til ræktunar langt umfram það sem markaður til manneldis þarf. Verið er að kanna hvaða áhrif stórfelld kræklingaræktun hefur á umhverfið, en engin skref verða tekin í slíkri ræktun nema hún reynist sjálfbær og ábyrg, segir í umfjöllun norsku Hafrannsóknastofnunarinnar.

Framleiðsla á prótínríku fóðri úr lirfum flugna, skordýramjöl, hefur þegar tekið flugið, eins og Fiskifréttir hafa fjallað um. Sjö tegundir skordýra hafa verið samþykktar sem uppspretta hráefnis til mjölgerðar fyrir eldisfisk í Noregi og það hefur sannað sig sem gott fóður. Enginn munur finnst á þeim fiski sem alinn er á skordýramjöli og öðru fóðri. Fiskurinn vex jafnframt jafn hratt og er í eins góðum holdum við slátrun eins og á hefðbundnu fóðri.

Enn önnur leið til þessa eru burstaormar og í Noregi er skoðað hvort ormarnir, sem þegar lifa á fóðurleyfum undir eldiskvíum, nýtast til fóðurgerðar. Þarna gefst möguleiki til hringrásarkerfis þar sem fóðurleyfar og úrgangur frá fisknum eru nýttar til fóðurframleiðslu. Slík framleiðsla er, eins og gefur að skilja, nýting sem minnkar álag á aðrar uppsprettur hráefnis.

Vistsporið

Leitin að nýjum hráefnum til fóðurframleiðslu snýst, þegar öllu er á botninn hvolft, um vistspor greinarinnar. Fóðrið sem er ræktað á landi skýrir stóran hluta vistspors fiskeldisins. Þar þarf að reikna inn orkuþörf, áburð, vatnsnotkun, flutninga og landnotkun – og máta það við hvernig allt þetta hefði nýst í öðrum tilgangi. Fiskmeti leikur stórt hlutverk við að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að uppræta hungur í heiminum og tryggja fæðuöryggi.

Það er hins vegar niðurstaða norsku Hafró að framleiðsla sjávarfangs og eldisfisks almennt megi ekki megi ekki rekast á önnur markmið um sjálfbæra þróun við baráttuna gegn loftslagsvánni og varðveislu lífs á landi og neðan yfirborðs vatna og hafs.