Tapast hafa tugir milljarða króna á þorskeldi í Noregi á síðari árum og mörg eldisfyrirtæki hafa farið á hausinn. Eitt þeirra er Skei Marinfisk sem tapað hefur jafnvirði rúmlega sjö milljarða íslenskra króna.
Þetta kemur fram í frétt í Fiskeribladet/Fiskaren. Banki fyrirtækisins hefur tekið það yfir og forðað því frá gjaldþroti,
Skei Marinfisk var stofnað árið 1997 og hefur starfrækt eldisstöðvar í Leka og Bindal í Norður-Þrændalögum í Noregi. Fyrirtækið hefur alla tíð verið rekið með tapi. Þegar forsvarsmenn fyrirtækisins töldu sig vera farna að sjá til sólar í rekstrinum skall fjármálakreppan á. Auk þess hefur þorskverð snarlækkað í verði, bæði vegna kreppunnar en ekki síður vegna þess að þorskkvótinn í Barentshafi var aukinn um þriðjung.
Ætlunin er að reyna að halda áfram lífi í fyrirtækinu og er helst horft til laxeldis eða áframeldis á veiddum þorski.