Tap Vinnslustöðvarinnar hf. á árinu 2024 nam 3,5 milljónum evra eða jafnvirði liðlega 500 milljóna króna. Þetta er í annað sinn á síðustu 25 árum sem félagið er rekið með tapi. Þetta er meðal þess sem kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2024 sem var haldinn í húsakynnum félagsins í gær.

Velta samstæðunnar var 177 milljónir evra, eða jafnvirði liðlega 26 milljarða króna. Bókfærðar heildareignir félagsins námu 422 milljónum evra, eða jafngildi 61 milljarðs króna. Þar af voru heildarskuldir og skuldbindingar félagsins tæpir 44 milljarðar króna.

Milljarða endurbygging

Stærsti áhrifaþáttur taprekstrar í fyrra var loðnubrestur. Sú varð raunin aftur í ár. Í frétt á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar segir að það sé mikið áhyggjuefni fyrir félagið, og um leið allt samfélagið, hve lítið er vitað um loðnu, hegðun hennar og samspil vistkerfis hafsins.

Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum, aðallega í nýbyggingu botnfiskvinnslu, jukust verulega eða um 19,4 milljónir evra, jafnvirði 2,9 milljarða króna. Samþykkt var að ekki yrði greiddur arður til hluthafa í ár.

Áformum um nýsmíðar slegið á frest vegna stefnu stjórnvalda

Fram kom í ræðu Guðmundar Arnar Gunnarssonar, stjórnarformanns, að verði boðaðar hækkanir á veiðigjöldum að veruleika muni Vinnslustöðin ekki geta fjárfest eins og gert hafi verið á undanförnum árum.

„Tími er kominn til að endurnýja verulega skipakost félagsins og liggja fyrir teikningar af nýjum þriggja og fjögurra mílna bátum. Smíði 3ja mílna togbáta hafði verið boðin út og verðtilboð höfðu borist. Skipin voru hönnuð með sama hætti og Breki, með stórri og hæggengri skrúfu sem myndi minnka kolefnisspor útgerðar okkar til muna. Stefnt var að því að semja um smíði skipanna á haustdögum, eða í kjölfar þess að við sæjum fram á loðnukvóta á næsta ári. Þessum áformum hefur nú verið slegið á frest vegna stefnu stjórnvalda um að liðlega tvöfalda veiðigjöld.” sagði Guðmundur Örn.

Í lok fundar fór Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri, yfir áhrif veiðigjalda á fyrirtækið.

Stjórn félagsins var endurkjörin. Hana skipa: Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Rut Haraldsdóttir, Sigurhanna Friðþórsdóttir og Sigurjón Rúnar Rafnsson. Varamenn eru: Eyjólfur Guðjónsson, Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir og Herdís Ásu Sæmundardóttir.