Ráðgjafafyrirtækið Intellecon telur að hver starfsmaður Hvals verði af á bilinu 2 til 3,8 milljónum króna vegna þess að ekki hefur orðið af hvalveiðivertíðinni í ár.

Þetta kemur fram í skýrslu en efnahagsleg áhrif hvalveiða sem Intellecon vann fyrir matvælaráðuneytið.

„Samkvæmt forsvarsmönnum verkalýðsfélags Akraness hafa um 120 manns starfað við vinnslu á hvalaafurðum á síðustu vertíð og skv. sömu heimild eru meðallaun starfsmanna við veiðar og vinnslu hvals milli 1,7 - 2 milljónir króna á mánuði sem er langt fyrir ofan meðallaun í landinu,“ segir í skýrslunni

Tekið er fram að í þessum samanburði verði að líta til þess að um tímabundna vertíð sé að ræða sem og vaktavinnu. Ef gert sé ráð fyrir að sérhver starfsmaður vinni við hvalveiðar og vinnslu í fjóra mánuði á ári, geri það um 480 mannmánuði.

„Ef gefnar eru forsendur um að meðallaun sem þessum starfsmönnum bjóðist annars staðar á sama tíma séu um 745 þúsund krónur á mánuði þá má reikna með að hver og einn starfsmaður verði af á bilinu 2 – 3,8 milljónum króna vegna lægri tekna en ella þá mánuði sem vertíðin stendur yfir,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að munur á launasummu þessa hóps þegar unnið sé við hvalveiðar og vinnslu miðað við að unnin séu önnur störf, að gefnum sömu forsendum liggi á bilinu 240 - 456 milljónir króna.

„Þetta endurspeglar þá staðreynd að þrátt fyrir að hvalveiðar og vinnsla sé ekki þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein sem stendur þá skiptir hún miklu efnahagslegu máli fyrir þá sem starfa í greininni,“ segir í skýrslu Intellecon.