Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra kynnti í dag skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Vinnuhópur starfsmanna úr fjórum ráðuneytum ásamt fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga unnu að skýrslunni ásamt sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum.

Í skýrslunni segir m.a. að það að leggja mat á kostnað þjóðfélagsins af verkföllum sé miklum vandkvæðum bundið, ekki síst við aðstæður sem þessar þar sem slegið sé á frest að nýta auðlind sem að nokkru eða miklu leyti verði nýtt síðar og skili þá tekjum síðar sem „leiðréttir“ að einhverju leyti fyrir þeim tekjumissi sem verkfallið valdi meðan á því standi. Því fari þó fjarri að allt tap og beinn kostnaður sem hljótist af töfum á nýtingu aflaheimilda megi vinna upp síðar alls staðar í flóknum virðiskeðjum sjávarafurða og í hagkerfinu öllu.

Hér fara á eftir nokkrir punktar úr skýrslunni:

• Útflutningur og framleiðsla ferskra bolfiskafurða hefur dregist saman um 40-55% á verkfallstímanum. Útflutningstekjur á þessum afurðum hafa minnkað um 3.500-5.000 milljónir króna. Nokkuð af þessu er tap sem ekki verður bætt.

• Standi verkfallið fram yfir loðnuvertíð verður þjóðarbúið af milljörðum króna.

• Áhrif verkfallsins á ráðstöfunartekjur sjómanna nema um 3.573 milljónum til 10. febrúar.

• Tekjutap 2.400-2.600 fiskvinnslumanna er metið á 818 milljónir króna. Það endurheimtist aðeins að mjög takmörkuðu leyti.

• Atvinnuleysistryggingasjóður hefur nú þegar greitt 312 milljónir í bætur og kauptryggingu til fiskvinnslufólks vegna verkfallsins. Greiðslur í sjóðinn hafa lækkað um 126 milljónir vegna verkfallsins.

• Eftir því sem verkfallið dregst á langinn mun það hafa áhrif á hagnað fyrirtækja og þar með lækkun á tekjum ríkissjóðs af skattgreiðslum og veiðigjaldi.

• Heildaráhrif verkfallsins til 10. febrúar 2017 á tekjur hins opinbera (ríki og sveitarfélög) vegna minni launagreiðslna í sjávarútvegi nema um 3.565 milljónum króna, þar af 2.998 milljónir króna vegna launa sjómanna (einhverju eða mestu leyti afturkræft) en 567 milljónum króna vegna launa fiskverkafólks (líklega að mestu óafturkræft).

• Verðmætasköpun sjávarútvegs og tengdra greina er talin hafa numið 350 - 425 milljörðum króna árlega frá 2008 sem samsvarar 960 - 1160 milljónum króna á dag að meðaltali. Ekki er þó hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins.

• Sjá skýrsluna í heild á vef atvinnuvegaráðuneytisins, HÉR.