Ein af þeim nytjategundum við Ísland sem lítið fer fyrir í umræðunni er gulllax. Helstu veiðisvæðin eru upp með landgrunninu suður- og suðvestur af Íslandi á 500-800 metra dýpi en beinar veiðar eru eingöngu heimilar á dýpi meira en 400 metrum. Gulllax er helst veiddur sem meðafli í karfaveiðum. Á yfirstandandi fiskveiðiári eru veiðar heimilar á 12.273 tonnum sem er 12% aukning frá fyrra ári. Útgerðarfélagið Brim hf. er með tæp 38% kvótans, 4.675 tonn.
Án veiðigjalds
Kvótastaða Brims í karfa og gulllaxi er sterk. Úthlutun í gulllaxi til Brims fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er sem fyrr segir 4.675 tonn og 3.200 tonn fara til Útgerðarfélags Reykjavíkur sem er eigandi tæplega 44% hlutafjár í Brimi. Í upphafi árs var auglýst í Stjórnartíðindum að tegundum sem borið hafa veiðigjald hefði fækkað um þrjár. Þær tegundir sem duttu út eru grálúða, rækja og gulllax. Þetta ætti að auka áhuga útgerða á veiðum á gulllaxi sem hafa verið undir útgefnu aflamarki allt frá fiskveiðiárinu 2013/2014. Gulllax er þó ekki verðmæt tegund – meðalverð á síðasta viðskiptadegi á fiskmörkuðum var 12 kr./kg.
Markmiðið að ná verðinu upp
Fiskifréttir ræddu við Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims hf., þegar verið var að útbúa Þerney RE 1 í sinn fyrsta veiðitúr frá Íslandi síðasta sumar. Hann sagði þá að gulllax hefði verið vannýtt tegund og ástæða þess væri einkum sú að enginn hefði séð sér hag í að veiða hann eftir að stjórnvöld lögðu á hann ofurhá veiðigjöld. Nú beri gulllax ekki veiðigjöld. Þerney RE henti sérstaklega vel til veiða á þeirri tegund ásamt karfa og þorski.
Gulllax er fremur verðlítil tegund en markmiðið sé að ná verðinu upp enda um gæðaafurðir að ræða. Nú þegar hafa veiðst 1.730 tonn af gulllaxi, þar af nemur afli skipa Brims tæpum 1.400 tonnum, og nánast allt það magn hefur verið veitt af Þerney RE 1. Útgerðarfélag Reykja[1]víkur, sem gerir út frystitogarann Guðmund í Nesi RE 13, hefur litlum afla landað það sem af er fiskveiðiári. Aflinn er að mestu heilfrystur um borð.
4.500 tonn flutt út
Á síðasta fiskveiðiári veiddust 7.524 tonn af gulllaxi (óslægt) en á fiskveiðiárinu 2022/2023 nam veiðin 5.430 tonnum og árinu þar á undan 6.550 tonnum. Hæst fór veiðin í tæp 13.400 tonn árið 1998, 12.100 tonn 2010/2011 og 11.000 tonn fiskveiðiárið þar á undan. Afli hefur verið talsvert undir aflamarki frá fiskveiðiárinu 2013/2014. Á síðasta ári voru flutt út 4.571 tonn af frystum gulllaxi og FOB verð var rúmar 740 milljónir króna, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.