Í skýrslu starfshóp um lagaumgjörð hvalveiða segir að hvalveiðar þurfi að lúta tilteknum kröfum samkvæmt lögum sem meðal annars taka mið af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Takmarkanir verði ekki lagðar á hvalveiðar nema með lögum sem þurfa að fullnægja viðmiðum sem leiða af stjórnarskránni.
Starfshópurinn bendir á að gildandi lög um hvalveiðar séu frá árinu 1949 og því komin til ára sinna. Í ljósi þess hefur starfshópurinn sett fram ábendingar í nokkrum liðum. Þær snúa m.a. að því að lægra settu stjórnvaldi verði falið að fara með útgáfu leyfa í stað ráðuneytis, að hvalveiðileyfi verði auglýst opinberlega, að skýrar verði mælt fyrir um hverjir geti verið handhafar leyfa og að fellt verði brott úr lögum það hlutverk ráðherra að samþykkja staðsetningu verkunarstöðva.
Starfshópurinn bendir á að ekki sé fjallað um framseljanleika veiðiheimilda í lögum. Setja þurfi leyfum til veiða í vísindaskyni skýrari lagaramma og að almennur rammi um gildistíma leyfa til hvalveiða verði settur með lögum eða reglugerð. Huga þurfi að því hvort samræma megi lög um hvalveiðar við almenna löggjöf um atvinnustarfsemi hér á landi. Þá telur starfshópurinn koma til greina að lög um hvalveiðar geymi einhver nánari fyrirmæli um veiðiaðferðir eða heimildir til að setja nánari reglur um veiðiaðferðir eða hæfni veiðimanna.
Skýrslu starfshópsins má nálgast hér.