Það má með sanni segja að grænlenska landsstjórnin tekur ráðleggingar fiskifræðinga sinna um hámarksafla þorsks í veiðum með ströndum fram ekki mjög alvarlega. Veiðiráðgjöfin í ár til strandveiða hljóðaði upp á rúm 12.000 tonn en útgefinn kvóti verður rúm 34.000 tonn þegar upp er staðið.
Í október síðastliðnum þegar bátarnir voru búnir með kvótann var hann hækkaður svo hann dygði út árið. Nú þegar komið var fram í desember var kvótinn á þrotum á ný og því hefur landsstjórnin bætt 1.400 tonnum við svo hægt sé að veiða árið á enda. Stjórnin gefur þá skýringu á kvótaaukningunni í ár að mat fiskifræðinga á stofninum sé ekki byggt á nægilega traustum grunni. Með kvótaaukningunni gefist kostur á að halda uppi atvinnu til sjós og lands allt til áramóta.