Mikill þörungablómi ógnar nú eldislaxi sem metinn er á tæplega þrjá milljarða króna í Aysen héraði í Síle. Þetta kemur fram á vef Salmon Business.
Þegar munu 2.854 tonn af eldislaxinum vera dauð. Eldið er á vegum fyrirtækjanna AquaChile and Blumar. Síðarnefnda fyrirtækið tilkynnti nýlega til kauphallarinnar í Síle um baráttu sína gegn þörungunum í stöð sinni í Victoria þar sem nú eru um 850 þúsund laxar sem eru um fjögur kíló að þyngd. Virði þeira er sagt vera 18,5 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 2,9 milljarða íslenskra króna.
Að því er segir á salmonbusiness.com hefur verið beitt sérhæfðum köfunarteymum og margvíslegum bátum og búnaði í viðureigninni við þörungana. Það sé hluti af stærra átaki til að draga úr áhrifum þörunganna og hindra frekara tap.
Sams konar þörungar hafa leitt til álíka ráðstafana hjá AquaChile í eldiskvíum sem bera heitið Melchor 7 Center. AquaChile hefur einnig tilkynnt um að gripið hafi verið til þessara aðgerða til að hindra fjöldadauða á laxinum.
Nánar er fjallað um málið á salmonbusiness.com.