Norska gaffalbitafyrirtækið King Oscar hefur verið selt til tælenska matvælaframleiðandans Thai Union Frozen Products. King Oscar er eitt þekktasta og elsta sjávarútvegsfyrirtæki Noregs.
Fjárfestingarsjóðurinn Procurita Capital Investors keypti King Oscar af Rieber og Søn árið 2010 og var markmiðið að selja fyrirtækið innan fárra ára. King Oscar velti um 80 milljónum dollara á síðasta ári (9,5 milljörðum ISK) og hefur vöxtur fyrirtækisins numið um 6% árlega síðustu 5 árin.
King Oscar er með elstu sjávarútvegsfyrirtækjum í Noregi og eru vörur þess seldar um allan heim. Saga fyrirtækisins nær allt aftur til ársins 1873 er fyrsta fyrirtækið í Noregi, sem framleiddi niðurlagðar sardínur, var stofnað. Vörumerkið King Oscar varð svo til árið 1902. King Oscar starfrækir nú tvær verksmiðjur, aðra í Svolvær í Noregi og hina í Gniewino í Póllandi. Starfsmenn eru 500.
Thai Union Frozen Products er stórt alþjóðlegt fyrirtæki og einn stærsti frameiðandi á túnfiskvörum í heiminum fyrir smásölumarkaði. Velta þess er um 3,7 milljarðar dollara á ári (440 milljarðar ISK).