Ef Skotland gæti tryggt sér aukalega 1% hlut af innflutningi á laxi til Japans myndi útflutningur þeirra til landsins tvöfaldast og verða um 6,4 milljónir punda (1,3 milljarða ISK). Þetta eru skilaboð frá Richard Lochead, matvælaráðherra Skota, eftir heimsókn hans til hins heimsfræga Nobu-veitingarstaðar í Tokyo þar sem skoskur lax er framreiddur.

Frá þessu er greint á vefnum Fishupdate.com. Þar segir einnig að japanskir veitingastaðir sæki nú í vaxandi mæli eftir hágæða laxi frá Skolandi í sushi-rétti. Túnfiskur er aðalhráefnið í sushi-rétti en nú sækir laxinn á. Hann er oft valinn í staðinn fyrir túnfisk þegar horft er til sjálfbærni.

Japanir flytja inn um 40% af þeim laxi sem þeir nota og eru meðal stærstu innflytjenda á laxi í heiminum. Innflutningurinn nemur 85.900 tonnum. Þar af er skoskur lax rétt rúmlega 1% og skilar 4,2 milljónum punda. Japanir éta 12% fiskmetis í heiminum en eru aðeins 2% íbúa jarða. „Í Japan er mikið tækifæri fyrir skoskan fisk,“ segir skoski matvælaráðherrann.