Lækningatæki sem vinnur gegn ógleði og uppköstum vegna sjóveiki, er komið á markað hér á landi.

Reliefband, eins og tækið kallast, er á stærð við úr og er fest á úlnlið með armbandi. Tækið hefur temprandi áhrif á þann hluta heilans sem skapar ógleðitilfinningu, að sögn innflytjanda.

„Í ljósi rannsókna á sjóveiki meðal íslenskra sjómanna má ætla að Reliefband geti komið þeim að miklu gagni,“ segir Ólafur Hauksson, hjá Promax, sem flytur tækið inn.

Ólafur vitnar til rannsóknar Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands á sjóveiki meðal sjómanna. Af 260 sjómönnum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu 88% upplifað sjókveiki og 43% þjáðust af spennuhöfuðverk.

Veikin mörgum hulin

Hannes Petersen læknir, sem rannsakar sjóveiki, sagði í umfjöllun Fiskifrétta fyrr á þessu ári að algengt sé að sjómenn segist aldrei verða sjóveikir, en þegar þeir eru spurðir nánar segja þeir gjarnan að í mikilli brælu verði þeir oft óskaplega þreyttir.

„Sjóveikin er mönnum voðalega hulin,“ sagði Hannes í erindi sínu, og segir að menn átti sig oft ekki á því að þeir séu sjóveikir af því að þeir telja að menn geti ekki talist sjóveikir nema þeir æli. Það sé hins vegar misskilningur því sjóveikinni fylgja fjölmörg einkenni, bæði líkamleg og andleg, og mörg þeirra ósjálfráð.

Hannes taldi jafnframt að margt benti til þess að sjóveiki eigi þátt í hárri slysatíðni sjómanna.

Það sem gæti ekki síst höfðað til sjómanna er að tækið dregur úr eða stoppar ógleðina um leið og það er ræst og hefur engin slævandi áhrif á notandann eða önnur eftirköst, segir Ólafur en Reliefband er bandarískt lækningatæki sem var skráð til sölu í Evrópu nýlega. Það er klínískt prófað, viðurkennt af FDA (bandarísku lyfjastofnuninni) og skráð hjá Lyfjastofnun.--