Háfur sem merktur var við austurströnd Bandaríkjanna árið 2005 veiddist við Ísland rúmum fjórum árum síðar. Vísindamenn segja þetta merkilega vísbendingu um tengsl þessara tveggja hafsvæða, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
Enok S. Klemensson, vélavörður á beitningarvélabátnum Kristínu ÞH, fann merkið í háfnum er skipið var að veiðum á um 40 faðma dýpi úti fyrir Hvalnesi, suðaustur af landinu í ágúst í fyrra. Hann skilaði merkinu til Hafrannsóknastofnunar. Í ljós kom að háfurinn hafði verið merktur í rannsóknum sem fram fara úti fyrir ströndum Norður-Ameríku.
Háfurinn var merktur á djúpslóð úti fyrir Norður-Karólínu 26. janúar 2005. Hann veiddist síðan 30. ágúst 2009, eða 1.677 dögum eftir merkingu og um 5.092 kílómetrum frá merkingarstað.
,,Okkur finnst þetta mjög merkileg tíðindi og mér sýnist að Bandaríkjamennirnir séu býsna uppveðraðir yfir þessu líka. Hins vegar er erfitt að draga miklar ályktanir af einu merki. Þetta gæti þó verið vísbending um það að meiri samskipti séu á milli þessara tveggja hafsvæða en menn hafa talið hingað til,“ segir Jónbjörn Pálsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, í samtali við Fiskifréttir.