Vísindamenn í Ástralíu tóku árið 2016 upp hljóð neðansjávar þar sem heyra mátti fiska „syngja“, eins og það var orðað. Hljóð þessi eru reyndar ekkert sérlega fögur, en hlusta má á herlegheitin á vef vísindatímaritsins New Scientist í grein frá 21. september 2016.
„Ég hef verið að hlusta á fiska gefa frá sér skræki, suð og hvelli í næstum þrjátíu ár núna og fjölbreytnin vekur mér enn furðu,“ er haft eftir Robert McCauley í þessari grein.
Hann stýrði rannsókn á fiskahljóðum sem hann og félagar hans við Curtin University í Perth í Ástralíu gerðu og komst meðal annars að því að fiskarnir gefa einkum frá sér hljóð að morgni dag og á kvöldin. Hljóðin eru oft síendurtekin og þegar margir fiskar gefa frá sér hljóð samtímis verður útkoman tilkomumikil.
Fleiri vísindamenn hafa tekið sér fyrir hendur að rannsaka hljóð sem berast frá fiskum. Í ágúst síðastliðnum birtu þrír vísindamenn frá Kaliforníu grein í tímaritinu Frontiers in Marine Science, þar sem þeir greindu frá hljóðupptökum sínum neðansjávar út af ströndum Kaliforníu. Þar mátti heyra fimm megintegundir af hljóðum sem helst heyrðust að kvöldlagi og voru yfirleitt á tíðnisviðinu 40 til 1000 herts.
Til samanburðar má nefna að söngur manna mælist yfirleitt á bilinu 85 til 255 herts, þannig að fiskarnir fara sumir vel niður fyrir dýpstu bassa og aðrir langt upp fyrir hæsta sópran.
Sumir sönghóparnir gáfu svo aðeins frá sér hljóð í stuttan tíma í einu en aðrir voru syngjandi látlaust í allt upp í nærri 14 klukkustundir. Greina mátti breytileika eftir dýpt og hitastigi sjávar, en sjaldnast var hægt að átta sig á því hvaða tegundir gáfu frá sér hljóðin þar sem upptökubúnaðinum fylgdi ekki myndatökubúnaður.
Hinn syngjandi fiskur Íslands
Í tengslum við þetta má kannski rifja upp pælingar Halldórs Laxness í Brekkukotsannál þar sem segir frá því þegar þöglir og stritandi Íslendingar tóku skyndilega upp á því að syngja á erlendri grund.
Brekkukotsannáll heitir raunar í enskri þýðingu The Fish Can Sing, og á þýsku fékk bókin heiti Der Fishkonzert, eða fiskakonsertinn.
Garðar Hólm átti að vera stórsöngvari sem íslenskir smákóngar höfðu sent út i heim til að læra söng.
Á einum stað í bókinni segir frá veislu mikilli sem haldin var til heiðurs Garðari heimkomnum eftir mikil frægðarverk erlendis. Gúðmúnsen kaupmaður viðurkennir þar að hann hafi reyndar fyrst verið sendur úr landi til að vinna í dönsku sláturhúsi:
„Hm, ég viðurkenni að okkur var ekki unt þess að skilja óperusaungvara framanaf,“ sagði kaupmaðurinn. „Hvur treystir sér til að viðurkenna saungmann hér á Íslandi? Með leyfi, hvað er aftur eða fram á kú í saungfræði hér á Íslandi? Afturámóti verð ég fyrstur manna til að beygja mig undir viðurkennínguna undireins og hún var feingin í Danmörku.“
Gúðmúnsen segir að það hafi verið Jensen sláturmeistari í Kaupmannahöfn sem áttaði sig fyrst á hæfileikum piltsins.
„Það er aðeins eitt svínasláturhús í Danmörku sem yfirgnæfir orkestrið í Álaborg, og þetta er sláturhúsíð hjá mér,“ hefur Gúðmúnsen eftir sláturmeistaranum: „En þegar við vorum búnir að heyra íslendínginn grenja öll þau trölla- útilegumanna- og draugakvæði sem höfð eru á íslandi, þá áttum við ekki leingur fóður undir fat; við sendum manninn rakleiðis til prófessors. Daginn eftir var hann kominn með vottorð."
Að framkvæma öfugmæli
Gúðmúnsen gerir sér þarna fulla grein fyrir mikilvægi þess að Íslendingur hafi komist til frama erlendis vegna hæfileika sinna. Fram að því hafi slíkt hreinlega þótt öfugmæli í fásinninu.
„Það er mál til komið að fara að hætta að tala um Egil Skallagrímsson sem gubbaði framaní fólk. Það er kominn tími til að fara að framkvæma stórhuga íslensk öfugmæli einsog það sem ég vitnaði í áðan,“ segir hann, og á þar við öfugmælavísuna þekktu sem eignuð hefur verið Bjarna Jónssyni Borgfirðingaskáldi:
Fiskurinn hefur fögur hljóð,
finnst hann oft á heiðum.
Ærnar renna eina slóð
eftir sjónum breiðum.
Má ekki minna vera
Gúðmúnsen telur greinilega að tími sé kominn til þess að Íslendingar fari að láta rödd sína heyrast.
„Ég segi, hef sagt og mun segja: sá fiskur sem ekki sýngur um allan heim, það er dauður fiskur. Það má ekki minna vera að við hér á íslandi förum að hafa syngjandi fisk – með slaufu. Velkominn heim, kæri landi, að þínu forna og nýa borði hér á Laungustétt! Við trúum á þig. Þú ert hinn sýngjandi fiskur þessa lands þó það sé ég de la Gvendur sem segi það! Skál.“
Garðar Hólm þakkar hólið en rifjar síðan upp söngafrek sín frá yngri árum þegar hann vann í búðinni hjá Gúðmúnsen kaupmanni:
„Í þessu húsi, einmitt hér niðri þar sem okkar elskulegi stórfaðir Jón Guðmundsson hefur verið keisari yfir fleiri saunglausum fiskum en nokkur íslendíngur, þar hófst karlssonur upp með saung; eða réttara sagt, hér varð hann illræmdur fyrir org og grenjan,“ segir Garðar Hólm um sjálfan sig.
„Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur þeim sigri sem ég vann eftilvill mestan sigra. þegar ég uppgötvaði að mér hafði í kappsaung tekist að gera eitt mesta svola- og svaðilmenni í þessu bæarfélagi svo þurhásan að ekki barst leingur frá honum stuna, þannig að konsertinn varð ekki útkljáður öðruvísi en með pústrum.“