Hákarlinn hefur ekki reynst vísindamönnum auðveldur viðureignar. Hann syndir um í hafinu og kemur stundum í veiðarfæri, en margt hefur verið á huldu um hagi hans og er enn.

Engu að síður hefur þekkingu á hákörlum fleygt töluvert fram á síðustu árum. Steven Campana er einn þeirra vísindamanna sem unnið hefur ákaft að því að rannsaka hákarla, jafnt Grænlandshákarlinn hér við land og aðra hákarla í heimshöfunum.

Hann er líffræðingur og prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hingað til lands kom hann fyrir sex árum en hafði þá verið yfirmaður hákarlarannsóknarstofu Kanada.

Steven segir að á undanförnum tuttugu árum eða svo hafi miklar framfarir orðið á tveimur þáttum í rannsóknum á hákörlum. Annars vegar er þar um að ræða nýjar aðferðir við aldursgreiningu, hins vegar hafi gervihnattarmerkingar orðið til þess að mun betri mynd hefur fengist af ferðum og lífsháttum hákarla.

Ferðirnar raktar

Gervihnattarmerkin, sem sett hafa verið á hákarla, skrá bæði dýpið og hitastig sjávar þar sem hákarlarnir eru staddir hverju sinni auk sem lesa má út úr þeim gróflega staðsetningu hákarlsins í allt að eitt ár.

„Eftir að árið er liðið þá flýtur merkið upp á yfirborð sjávar og sendir upplýsingarnar til gervihnattar, þaðan sem það berst svo aftur niður til okkar. Þá fáum við í hendur allar upplýsingar um hvað hákarlinn hefur aðhafst undanfarið ár án þess að þurfa að veiða hann aftur, sem er mikil framför.“

  • Nokkur hundruð hákarlategundir eru á sveimi um heimshöfin. Þessi hefur verið nefndur grái skeggháfur á íslensku og hefur fundist víða við strendur Ameríku, Afríku, Ástralíu og Suðaustur-Asíu, en þessi var kominn í sædýrasafn í Suður-Afríku þegar myndin var tekin. MYND/EPA

„Það sem við komumst að með þessu er að hákarlarnir eru að ferðast miklu lengra en við áttum nokkurn tímann von á.“

Meðal annars var fylgst með ferðum Grænlandshákarlsins. Á heimskautasvæðum Kanada voru sett gervihnattamerki í marga slíka og nðurstöðurnar komu á óvart.

„Við komumst að því að jafnvel þótt hákarlarnir fari mjög hægt yfir og virðist bara halda sig á ákveðnu svæði alla ævi þá voru sumir þeirra að synda 2.000 kílómetra á aðeins einu ári, og allir syntu þeir hundruð kílómetra á ári. Við höfðum ekki hugmynd um þetta.“

Af þessu má draga þá ályktun að þeir hákarlar sem sjást hér við Ísland gætu á síðasta ári vel hafa verið á ferðinni við Grænland eða Kanada, eða jafnvel við Noreg.

„Þeir synda heilmikið.“

Verða háaldraðir

Campana segir annað mikilvægt framfaraskref í hákarlarannsóknum hafa verið stigið með nýrri tækni við að ákvarða aldur þeirra og finna vísbendingar um vaxtarhraða þeirra.

„Við fengum nýja tækni til að skoða þetta, og fyrir flesta hákarla er það þannig að við tökum stykki úr hryggjarliðum og skerum í þunnar sneiðar. Þar sjáum við vaxtarrendur eins og á trjám.“

Þegar verið er að ákvarða aldur þorska og annarra fiska eru það yfirleitt kvarnirnar sem notaðar eru. Hvað hákarla varðar vandast málið vegna þess að þeir eru ekki með kvarnir. Þessi í stað hafa hryggjarliðir úr hákörlum verið notaðir, því þar hafa einnig fundist vaxtarhringi.

„Þessar renndur eru mjög fallegar í mörgum hákarlategundum. Það er auðvelt að lesa þær og þær gefa nokkuð nákvæma mynd af aldri hákarlanna, nema maður lendi á mjög gömlum hákarli. Grænlandshákarlinn er hins vegar undantekning. Þar er ekkert að sjá, og það er að hluta vegna þess að hryggjarliðirnir í þeim eru svo mjúkir að það er hægt að nota skeið til að skafa úr þeim. Það er ekkert að sjá.“

Fyrir nokkrum árum vakti vísindarannsókn ein gríðarlega athygli í fjölmiðlum, því þar fullyrtu Julius Nielsen og félagar að grænlandshákarlar gætu orðið allt að 400 ára gamlir.

Verða varla 400 ára

Þessi rannsókn, sem fékk mikla athygli í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum, um að þeir hafi verið 400 ára gamlir var byggð á mjög ítarlegri greiningu á augasteinum en það þurfti að gefa sér alls konar forsendur um hvað hafi verið að gerast og niðurstaðan á endanum varð sú að þessi tiltekna vísindagrein sem birtist í tímariti.

„Ég var reyndar meðal sérfræðinga sem lásu yfir þessa grein og tók þátt í að meta hvort það ætti að birta hana eða ekki, en á henni eru alls kyns vandkvæði,“ segir Steven. „Rannsóknin var mikilvæg margra hluta vegna en þetta með að ævilengdin sé 400 ár, sem allir hafa fjallað um, var í raun ekki nema ein setning í greininni og sá hluti stóðst að öllum líkindum ekki.“

Engu að síður telur Steven að flestir hákarlafræðingar myndu taka undir það að hákarlar geti orðið meira en 100 ára gamlir.

„Þeir eru mjög langlífir, en það er ekki víst að þeir verði 400 ára.“

  • Hákarlar hafa mikið aðdráttarafl enda heillandi skepnur. Mynd/EPA

Hvað sem því líður segir Steven að hákarlategundir lifi miklu lengur en áður var talið, og nefnir sem dæmi hvítháfinn fræga úr bíómyndinni Jaws.

„Fyrir ekki nema 20 árum hélt fólk að fullvaxta hvítháfur yrði ekki nema 12 eða 15 ára eða kannski jafnvel 20 ára, en nú höfum við fundið allt að 86 ára gamla.“

Hákarlar í vanda

Hár aldur hákarlanna sýnir að þeir vaxa hægt, og Steven segir það jafnframt segja okkur að ekki megi ganga hart að þeim í veiðum.

„Veiðiálagið þarf að minnka. Yfirleitt má veiða mikið af fiskum sem vaxa hratt, eins og loðna og síld, án þess að það skaði stofninn. Hins vegar þarf að halda veiðiálaginu litlu á fisktegundum á borð við karfa sem verða allt að hundrað ára gamlir. Það er vegna þess að stofninn endurnýjast svo hægt. Þetta útskýrir af hverju margar hákarlategundir í heiminum eru í vanda, það eru einfaldlega of margir þeirra drepnir.“

Hann segir engan vita með vissu hvernig ástandið er á stofni Grænlandshákarlsins, hvort hann sé í vanda.

„Veiðin á þeim er býsna lítil nú um stundir, þannig að ég held ekki að hún hafi áhrif núna. En hugsanlega það áhrif á stofninn þegar veiðin var meiri hér á árum áður. Hvað hinar hákarlategundirnar sem eru hér við land þá eru þær djúpsjávartegundir sem við vitum hreinlega ekki mikið um. Við vitum ekkert hvort þeir stofnar standa vel eða illa. Það er erfitt að rannsaka þær.“

  • Hákarlauggar þykja góðir í hákarlauggasúpu sem hefur lengi notið vinsælda, einkum í nokkrum Austur-Asíulöndum. Talið er að árlega hafi um eða yfir 70 milljónir hákarla verið drepnir til þess eins að skera af þeim uggana, en nú er víða búið að banna þetta enda eiga þessar aðfarir stóran þátt í því að hákarlategundir eru margar hverjar í útrýmingarhættu. MYND/EPA

Steven segir ofveiði hákarla vera gríðarmikið vandamál víða um heim, enda hafi lítið verið hugað að vernd þeirra. Partur af vandanum sé sú hefð, einkum í Asíulöndum sumum, að nota ugga af hákörlum í súpu. Víða séu hákarlar veiddir til þess eins að skera uggann af þeim, og restinni jafnvel hent í sjóinn. Víða sé þetta bannað, en Steven segir nauðsynlegt að banna þetta alls staðar.

„Ekki er þó öll ofveiði gerð af ásettu ráði. Margir, og kannski flestir, hákarlar eru veiddir af slysni sem meðafli. Jafnvel þótt þeim sé sleppt aftur út í hafið þá drepast margir þeirra fljótlega, allt að helmingur, af sárum eða bara af andlegu álagi. Stærsta ógnin við hákarla á heimsvísu er að þeir veiðast sem meðafli.“

Rannsakar hákarla

Steven Campana er líffræðingur og prófessor við líf- og umhverfisdeild Háskóla Íslands. Ásamt kennslu sinnir hann og stýrir rannsóknum á hákörlum.

Steven er frá Kanada og var þar lengi yfirmaður Hákarlarannsóknastofnunar Kanada, Canadian Shark Research Laboratory.

Fyrir sjö árum sagði hann upp vegna afskipta kanadískra stjórnvalda af störfum vísindamanna, en á þessum tíma sögðu fjölmargir virtir vísindamenn og stjórnendur rannsóknarstofnana upp störfum þar í landi af sömu ástæðu.

Hér á landi hefur Steven haldið áfram rannsóknum sínum á hákörlum, meira þó á heimsvísu frekar en að einblína á hákarla hér við land. Nemendur hans hér á landi hafa meðal annars unnið að því að greina aldur djúpsjávarháfiska við Ísland.

  • Steven Campana ásamt rannsóknarefni sínu, hákarli. MYND/Aðsend