Þingrétturinn í Lófóten kvað í síðustu viku upp dóm í mjög svo umtöluðu brottkastsmáli í Noregi, en í því var áhöfnin á togaranum Hekktind sökuð um að kasta fiski í veiðiferð árið 2010 sem numið hefði allt að 30% af 320 tonna afla.

Í úrskurði réttarins segir að áhöfnin sé á einu máli um að enginn ásetningur hafi verið um brottkast af hennar hálfu. Rétturinn telur að vinnslustjórinn um borð beri ábyrgð á því sem gerðist, en hann hafi sjálfur tekið brottkastið upp á myndband í þeim tilgangi að skaða útgerðina og áhöfnina sem hann hafi staðið í deilum við. Athæfi hans hafi stjórnast af hefnigirni. Rétturinn útilokar ekki að fiskurinn sem myndaður var sem brottkast hafi eftir á ratað inn á vinnslulínur skipsins.

Ásakanirnar leiddu til þess að fiskistofa Noregs svipti Hekktind veiðileyfi sínu, fyrst í 12 mánuði sem síðan var stytt í 5 mánuði frá og með ágúst síðastlðnum.

Togarinn Hekktind er í eigu Nordland Havfiske AS sem er  dótturfyrirtæki Aker Seafood í Noregi. Útgerðin sjálf bað lögregluna um að rannsaka ásakanirnar um brottkast. Íslendingurinn Ari Jósefsson, sem er útgerðarstjóri Nordland Havfiske, fagnar niðurstöðu réttarins í frétt á vef norskra útvegsmanna og segir þungu fargi létt af áhöfn og eigendum togarans enda hafi ásakanirnar verið alvarlegar.