Krabbadýrið Sphyrion lumpi, er ytra sníkjudýr á karfategundum (Sebastes spp.) við Ísland og veldur efnahagslegu tjóni þar sem það festir sig í vöðva fisksins og veldur þannig afurðaskemmdum. Næstkomandi fimmtudag flytur Ásthildur Erlingsdóttir erindi um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði sem ber heitið Sníkjudýr karfa (Sebastes spp.) við Íslandsstrendur.
Í þessu verkefni voru áður ógreind langtímagögn er varða sýkingar á úthafskarfa (Sebastes mentella) af völdum S. lumpi við Ísland skoðuð. Í rannsókninni voru frávik á ytra borði fisksins sett í fimm flokka: svartir blettir, rauðir blettir, blandaðir blettir, kýli eða leifar eftir Sphyrion lumpi sýkingar og sníkjudýrið sjálft. Niðurstöður sýndu að smitmagn hefur ekki áhrif á ástand fisksins. Á rannsóknartímabilinu lækkaði tíðni sýkinga úr 25% árið 1995 í 9% árið 2013. Marktækur munur er á smitmagni milli kynja hjá S. mentella og einnig á milli stofna úthafskarfa.
Í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar segir að niðurstöðurnar gefa góða mynd af þróun S. lumpi sýkinga við Ísland, ásamt smittengdum hýsilsvörunum karfans, og gætu þær haft áhrif á sýn vísindasamfélagsins á samsetningu karfastofna hér við land.
Sjá vef Hafrannsóknastofnunar.