Ljóst er að sýking í íslensku síldinni veldur gríðarlegu tjóni. Gert er ráð fyrir að í fyrra og í ár drepist samtals um 350 þúsund tonn af síld af völdum sýkinnar. Áætla má að þetta magn af síld gæti skilað þjóðarbúinu um 25 milljörðum króna í útflutningstekjur.

Þessar upplýsingar koma fram í ítarlegri umfjöllun í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag um sýkingu síldarinnar og afleiðingar hennar.

Sýking í síldinni í fyrra var um 32% að meðaltali en hún jókst til muna í vetur og var um 43% að meðaltali. Talið er fullvíst að öll sýkt síld drepist á 100 dögum og að hámarki á 6 mánuðum.

Stofn íslensku sumargotssíldarinnar var um 542 þúsund tonn í upphafi árs 2009 að mati Hafrannsóknastofnunarinnar. Miðað við 32% sýkingarhlutfall má gera ráð fyrir að 175 þúsund tonn af síld hafi drepist af völdum sýkingarinnar í fyrravor.

Endanlegt stofnmat síldar fyrir árið 2010 liggur ekki fyrir en miðað við 43% sýkingarhlutfall í vetur má gera ráð fyrir afföllum af svipaðri stærðargráðu í vor og í fyrra.

Hvert tonn af síld upp úr sjó getur gefið að meðaltali um 70 þúsund krónur í útflutningstekjur miðað við að helmingur fari til bræðslu og helmingur til manneldisvinnslu.

Samkvæmt því má reikna með að tjón af völdum sýkingarinnar við það að um 350 þúsund tonn af síld drepist nemi rétt tæpum 25 milljörðum króna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.