Danskir sjómenn harma hlut sinn þessa dagana. Ódýr þorskur frá Noregi streymir inn á markaðinn og þrýstir verðinu niður. Verðið á þorski á mörkuðum í Danmörku hefur aldrei verið eins lágt í manna minnum og í síðustu viku, að því er fram kemur á vefnum www. nordjyske.dk .
Þegar Norðmenn senda fisk á markaðinn á 12 krónur kílóið (276 ISK) segir sig sjálft að við getum ekki fengið 17 krónur í Danmörku, segir einn af talsmönnum í dönskum sjávarútvegi.
Á fiskmarkaðnum í Hanstholm fór verðið á þorski niður í 11 krónur á kílóið (253 ISK) en verðið þar er venjulega í kringum 22 krónur (506 ISK).
Útlitið er ekki gott og danskir sjómenn velta því fyrir sér hvort það borgi sig að fara á sjó þegar verðið er svona lágt eða hvort betra sé að bíða fram á vorið. Minna framboð er þá af þorski eftir að vetrarvertíð Norðmanna lýkur.
Lága verðið skýrist bæði af auknu framboði af þorski frá Noregi og kreppunni í Suður-Evrópu sem dregið hefur úr eftirspurn.