SVN-samstæðan greiddi 9,7 milljarða til samfélagsins 2014-2015
Þar af voru veiðigjöld 1,8 milljarðar króna.
Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2014 og 2015. Samfélagsspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar teljast, auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá hf. og SVN-eignafélag ehf.
Á vef Síldarvinnslunnar eru tilgreinar nokkrar niðurstöður þessara útreikninga.
• Rekstrartekjur samstæðunnar námu 27 milljörðum króna árið 2015 og fjöldi ársverka var 334.
• Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2015 nam 10,5 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.
• Launagreiðslur námu 15% af verðmætasköpun ársins 2015.
• Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2015 var 12,3 milljónir króna.
• Samfélagssporið nam 15,3 milljónum fyrir hvern starfsmann á árinu 2015.
• Veiðigjöld námu 909 milljónum króna á árinu 2014 og 872 milljónum á árinu 2015.
• Veiðigjöld sem hlutfall af samfélagsspori námu tæplega 20% árið 2014 og 17% árið 2015.
• Á árinu 2015 greiddi samstæðan 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald.
• Alls greiddi samstæðan 94 milljónir króna í stimpilgjöld á árinu 2015, þar af voru greiddar 82 milljónir í stimpilgjöld vegna kaupa á uppsjávarskipinu Beiti NK.
• Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,1 milljarði árið 2015. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,7 milljörðum króna í formi skatta og gjalda á árunum 2014 og 2015. Ekki eru metin margfeldisáhrif vegna kaupa á innlendum vörum og þjónustu.
Sjá nánar á vef SVN