Alls veiddu íslensk skip liðlega 94.000 tonn af kolmunna í færeyskri lögsögu í maímánuði og 2.400 tonn í íslenskri lögsögu. Heildarafli í kolmunna í maí nam því  96.500 tonnum, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Það sem af er ári er kolmunnaaflinn orðinn 152.000 tonn af 215.000 tonna kvóta. Því er búið að veiða rúm 70% kvótans. Kolmunnaaflinn er ívið minni en á sama tíma í fyrra en þá nam hann rúmum 156.000 tonnum. Beitir  NK-123 er aflahæsta skipið á kolmunna með 15.791 tonn og næst kemur Vilhelm Þorsteinsson EA-11 er með 15.695 tonn.

Makrílveiðar eru ekki hafnar en þó hafa íslensk skip landað tæpum 150 tonnum af makríl sem meðafla úr kolmunnaveiðunum við Færeyjar.  Einnig hafa veiðst fáein tonn af norsk-íslenskri síld á sömu veiðum.

Veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg hófust í maí. Alls lönduðu íslensk skip 768 tonnum. Þetta eru skipin  Örfirisey ER-4 sem landaði 495 tonnum og Mánaberg með 273 tonn.

Sjá nánar um veiðar úr deilistofnum á vef Fiskistofu.