Um 120 til 130 grásleppubátar eru byrjaðir veiðar og er það svipaður fjöldi báta og var í upphafi vertíðar í fyrra, að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við nýjustu Fiskifréttir.
„Aflabrögðin eru víðast hvar nokkuð góð. Sérstaklega er góð veiði á svæðið úti fyrir öllu Norðurlandi, frá Húnaflóa að Kópaskeri. Einnig er góð veiði við Grindavík. Hins vegar er minni veiði norðaustur af landinu, frá Raufarhöfn að Vopnafirði, þar sem metveiði var í fyrra. Þrátt fyrir góða veiði víða er minni afli á dag á heildina litið en var í fyrra,“ sagði Örn.
Í Fiskifréttum er einnig rætt við Jón Þorsteinsson grásleppukarl á Grenivík, skipstjóra á Feng ÞH. Jón hefur stundað grásleppuveiðar í áratugi og hann segir að þetta sé ein besta byrjun á vertíðinni sem hann muni eftir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.