Dagana 13.-.17. ágúst s.l. var haldinn fundur í Þórshöfn í Færeyjum með þátttöku fiskifræðinga frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þar var fjallað um og samræmd gögn alþjóðlegs rannsóknaleiðangurs í sumar, sem beindist að vistfræði, dreifingu og magnmælingu makríls og annarra uppsjávartegunda í Norðaustur Atlantshafi.

Rannsóknarsvæðið var útvíkkað samanborðið við fyrri leiðangra, einkum til norðurs að Svalbarða, til austurs í Barentshaf og til vesturs og suðurs að Hvarfi á suðurodda Grænlands. Árni Friðriksson kannaði grænlenskt hafsvæði á vegum Grænlendinga..

Makríll fannst víðast hvar á rannsóknasvæðinu og í svipuðu magni og árið 2013, segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar, en því má skjóta hér inn að þá mældist stofninn alls 8,8 milljónir tonna, þar af var um ein og hálf milljón tonna á íslenska hafsvæðinu.

Dreifing norsk-íslensku síldarinnar var vestlægari og norðlægari en undanfarin ár. Hrognkelsi fundust víðast hvar norðan 65. gráðu, en við Grænland náði útbreiðslan eins langt suður og kannað var.

Stærð makríls jókst að jafnaði í norður og vesturátt eins og rannsóknir undanfarinna ára hafa einnig sýnt.

Niðurstöður þessa leiðangurs verða nýttar á fundi vinnunefndar Alþjóðahafrannsóknarráðsins í lok ágúst sem mun meta stærð stofnanna og gera tillögur um afla ársins 2015 í framhaldi af því.

Sjá kort af útbreiðslu makrílsins á vef Hafrannsóknastofnunar .