Sænsk náttúruverndaryfirvöld hafa gefið út leyfi til veiða á 230 selum í Eystrasalti í ár. Stofninn þar telur um 25 þúsund seli. Þetta er svipað magn og heimilt var að veiða í fyrra en þá voru 128 selir skotnir.

Selastofninn í Eystrasalti hefur stækkað mjög ört og skapar hann stórkostlegan vanda fyrir strandveiðimenn í Svíþjóð. Selurinn í Eystrasalti ætlar einnig að verða sænska ríkinu dýrkeyptur því sænsk yfirvöld greiða um 25 milljónir króna í ár (í kringum 500 milljónir íslenskar) til að bæta sjómönnum þann skaða sem selurinn veldur þeim.

Tólf selir hafa verið merktir með sendum sem fylgjast með ferðum þeirra. Í ljós hefur komið að selirnir heimsækja sömu svæðin aftur og aftur. Einnig hefur það sýnt sig að selirnir get lagt miklar vegalengdir að baki á stuttum tíma. Einn selurinn synti til dæmis 190 kílómetra á þremur dögum.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren