Svartir blettir í holdi eldislax valda mörg hundruð milljóna dollara tjóni hjá eldisfyrirtækjum á hverju ári. Nú telja norskir vísindamenn sig hafa komist að orsökum þessa kvilla og hvernig koma megi í veg fyrir hann.

Talað er um tímamóta niðurstöður í þessum efnum. Svörtu blettirnir draga úr gæðum afurðanna og í sumum tilvikum þurfa fyrirtækin að skera í burt hluta af holdinu til þess að fjarlægja blettina. Það dregur úr verðmætum afurðanna og hagnaði fyrirtækjanna. Samkvæmt nýjustu aðgengilegu upplýsingum var kostnaðurinn vegna þessa á bilinu 110 120 milljónir evra á árinu 2019.

„Það er ástæða til að ætla að kostnaðurinn hafi aukist enn frekar, ekki síst í ljósi hækkandi afurðaverðs. Þetta hefur verið stórt vandamál iðnaðarins,“ segir Oddbjörn Grovik frá norska ráðgjafafyrirtækinu Menon.

Ekki skaðlegt mönnum

Svartir blettir í holdi eldislax eru fremur algengir en þeir eru ekki skaðlegir mönnum til neyslu. En neytendur forðast vöru af þessu tagi, ekki síst af fagurfræðilegum ástæðum. Síðastliðin 20 ár hafa vísindamenn hjá norska sjávarafurða rannsóknasjóðnum, FHF, varið 5,9 milljónum evra í ellefu verkefni sem tengjast svörtu blettunum í holdi eldislax. Áður, eða árið 2015, hafði FHF gefið það út að svörtu blettina mætti að öllum líkindum rekja til veirusýkinga, svokallaðrar PRV-veiru. Nú hafa þeir fallið frá þeirri kenningu og komist að því að rætur vandans tengist breytingum sem verða í fituvef laxins og svonefndu fitudrepi. Orsakavaldurinn sé hátt innihald jurtaolíu í fóðri. Til að koma í veg fyrir að svörtu blettirnir myndist þurfi eldisfyrirtæki og fóðurframleiðendur að breyta fituinnihaldi fóðursins eða draga úr fituinnihaldinu. „Þetta eru stór tímamót. Ég er mest hissa að niðurstöðurnar hafi ekki vakið meiri athygli,“ segir Grovik.