Rækjutogarinn Reval Viking, sem Reyktal gerir út, hefur að undanförnu verið á rækjuveiðum í ís og náttmyrkri um 70-100 mílur norður af Svalbarða. „Vandamálið er að finna stað til þess að hífa trollið og koma því í sjóinn aftur án þess að það fyllist af ís,“ segir Eiríkur Sigurðsson skipstjóri í samtali við Fiskifréttir.
Veiðisvæðið er alveg norður á 82. gráðu. Í upphafi veiðiferðarinnar var bjart hálfan sólarhringinn og þá tók Eiríkur meðfygjandi mynd, en svo fór fljótt að dimma meira og undir lokin var niðamyrkur allan sólarhringinn. Fimbulkuldi er á þessu svæði og fer frostið alveg niður í 30 stig. Því er erfitt að vinna ofanþilja og kalhætta mikil.
Sjá nánar viðtal við Eirík í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í morgun.