Stjórnvöld í Suður-Kóreu ætla að verja 6,24 milljörðum dollara, 800 milljörðum ISK, í fjárfestingarsjóði og í lánveitingar til að efla fiskiðnað í landinu. Þetta er liður í stefnu stjórnavalda að gera landið að 10. stærsta fiskframleiðanda í heiminum árið 2014.
Í skýrslu sem sjávarútvegsráðherra Suður-Kóreu hefur látið vinna kemur fram að fiskframleiðsla landsins nái 3,7 milljónum tonna árið 2014 en framleiðslan nam rúmum 3,3 milljónum tonna árið 2008.
Suður-Kórea stefnir einnig að því að auka útflutning á sjávarafurðum í 2,5 milljarða dollara árið 2014 (320 milljarða ISK) en salan nam 1,45 milljörðum dollara árið 2008 (186 milljörðum ISK).
Ef þessar áætlanir ganga eftir mun Suður-Kórea ná því marki að verða 10. stærsti fiskframleiðandi heims en var í 13. sæti árið 2007.
Heimild: fis.com