Fjórði hver Norðmaður hefur lagað sushi-rétt heima hjá sér. Fáir réttir hafa vaxið jafnhratt að vinsældum og sushi undanfarin ár, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag.

Rannsókn sem gerð var fyrir norska sjávarafurðaráðið ( Sjømatrådet) sýnir að 40% Norðmanna hafa borðað sushi á síðustu 12 mánuðum.

Norðmenn skera sig ekki úr að þessu leyti því sushi fer sigurför um hinn vestræna heim. Þetta sést best á því að Parísarbúar velja frekar sushi en pizzu þegar þeir panta heimsendan mat. Ekki þarf að taka fram að þessi þróun léttir fisksölumönnum róðurinn.

Í  Noregi hefur sala á tilbúnum sushi-réttum aukist um 82% á síðasta ársfjórðungi. Vinsældir sushi eru ekki aðeins bundnar við rétti sem menn geta keypt í verslunum eða veitingahúsum. Fólk er í æ ríkari mæli farið að útbúa sushi-rétti í heimahúsum. Norskar rannsóknir sýna að 25% Norðmanna hafa sjálfir gert sushi heima og þrír fjórðu telja auðvelt að útbúa þennan vinsæla rétt.