Margt bendir til að styrkur ýmissa mengunarefna hafi minnkað í hafinu umhverfis Ísland. Aftur á móti er súrnun hafsins einna hröðust á heimsvísu í hafinu fyrir norðan land.

„Skýr vísbending er um að styrkur ýmissa mengunarefna fari minnkandi við Íslandsstrendur,“ segir í nýrri skýrslu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um ástand hafsins við Ísland. Skýrslan er tekin saman í tilefni af ráðherrafundi OSPAR-samningsins um vernd Norðaustur-Atlantshafsins sem haldinn verður föstudaginn 1. október.

Alvarlegasta ógnin sem steðjar að lífríki sjávar er að öllum líkindum súrnun hafsins, og á það við hér við Ísland ekki síður en annars staðar.

„Vöktun á súrnun sýnir að hún er einna hröðust á heimsvísu í hafinu norðan Íslands,“ segir í skýrslunni.

Möguleikar til aðlögunar að súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríkið eru taldir vera afar takmarkaðir. Eina raunhæfa lausnin á þessum vanda sé að draga verulega úr losun koldioxiðs í andrúmsloftið.

Skrápdýr í vanda

Súrnun sjávar getur ekki síst haft alvarleg áhrif á lífverur sem nýta kalk til þess að mynda skeljar. Þar má nefna bæði kóralla og skrápdýr eins og krossfiska og ígulker.

„Einnig eru ýmsir lífeðlisfræðilegir ferlar í lífverum háðir sýrustigi og getur súrnun þannig t.d. haft áhrif á æxlun og vöxt lífvera.“

Í skýrslunni segir að nýlega hafi rannsóknir á afleiðingum súrnunar á lífríki hafsins við Ísland verið efldar.

„Auk súrnunar hefur hlýnun og breytingar á hafstraumum og sjávarborði áhrif á vistkerfi hafs og stranda. Fylgjast þarf grannt með þeim breytingum og líklegum áhrifum þeirra á lífríki hafsins við Ísland, efnahag og samfélag.“

Minni mengun

Aftur á móti mælist styrkur mengunarefna í sjávarfangi yfirleitt undir viðmiðunarmörkum.

„Styrkur þungmálma í sjávarlífverum við island mælist yfirleitt nokkuð stöðugur en virðist almennt mega skýra af náttúrulegum orsökum.“

Yfirleitt sé styrkur mengunarefna í sjávarfangi undir viðmiðunarmörkum en í sumum tilvikum hafi styrkur kadmíums verið yfir bakgrunnsmörkum. Það megi líklega skýra með háum náttúrulegum styrk kadmíums sums staðar við Ísland.

„Tin-mengun sem rakin var til efna í skipamálningu hefur marktækt minnkað skv. vöktun á nákuðungum.“

Þá mælist mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna einnig lítil og styrkur þeirra hefur minnkað, sem „skýrist helst af minni losun þessara efna á heimsvísu. Þannig hefur dregið mjög úr losun geislavirkra efna í hafið frá kjarnorkuendurvinnslu í Bretlandi.“

Skipulögð vöktun

Skýrsluhöfundar segja margt hafa áunnist á undanförnum áratugum í baráttunni gegn mengun hafsins.

„Á alþjóðavísu hefur verið komið á fót samningum til að draga úr mengun af völdum þrávirkra lifrænna efna og kvikasilfurs auk framkvæmdaáætlunar gegn mengun hafs frá landi svo dæmi séu tekin. Einnig er unnið gegn mengun á vettvangi svæðisbundinna samninga, s.s. OSPAR¬samningsins um vernd NA-Atlantshafsins.“

„Skipulögð vöktun á mengun hafsins á sér þriggja áratuga sögu á Íslandi,“ segir þar ennfremur. Umhverfisstofnun hefur nú umsjón með þeirri vöktun og taka tíu stofnanir þátt í henni.