Súrnun hafsins mun hafa áhrif á allt lífríki hafsins að óbreyttu. Þetta er niðurstaða rannsóknar yfir 250 vísindamanna sem staðið hefur yfir í rúmlega átta ár. Ungviði ýmissa tegunda er sérstaklega hætt við neikvæðum áhrifum og afleiðingarnar vegna þess miklar.
BBC fjallaði um rannsóknina (BIOACID-project) fyrr í þessari viku og ein aðal niðurstaðan sem þar er dregin fram stingur sérstaklega í auga þegar hagsmunir Íslands eru hafðir í huga. Ein sviðsmyndin er sú að aðeins fjórðungur þorskseiða komist á legg miðað við það sem gerist í dag. Svartsýnasta sviðsmyndin gerir ráð fyrir því að nýliðun þorsks gæti skerst enn meira en sem því nemur – eða að eitt af hverjum tólf seiðum komist á legg. Rannsóknin náði ekki til hafsvæða næst Íslandi, en ekkert virðist benda til að niðurstöðurnar eigi ekki við um öll hafsvæði þar sem þorsk er að finna.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar sérstaklega á 23. Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í nóvember.
Allir athugi!
Súrnun sjávar er þegar styrkur koldíoxíðs eykst og sýrustigið (pH-gildið) lækkar. Við þetta lækkar kalkmettun sjávar sem hefur víðtæk áhrif. Áhrif súrnunar á kalkmettandi lífverur; lífverur sem mynda stoðvef úr kalki, veldur sérstökum áhyggjum. Má þar nefna skeldýr ýmiss konar sem gegna ómissandi hlutverki í vistkerfum sjávar og í fæðukeðjunni. Hnignun lífvera sem eru sérstaklega viðkvæm gagnvart súrnun sjávar munu hafa dómínó áhrif á vistkerfið í heild.
Í grein BBC er rætt við forsvarsmann rannsóknateymisins, Ulf Riebesell, hjá GEOMAR Helmholtz-sjávarrannsóknamiðstöðinni í Kiel, sem segir að súrnun hafi mismikil áhrif á lífverur sjávar, en það sem nú sé að verða sífellt ljósara er að ungviði í sjónum er mun útsettara fyrir neikvæðum áhrifum en fullorðin dýr sömu tegunda. Hann bendir á að þó súrnun hafi ekki bein áhrif á eina tegund, getur hún engu að síður orðið fyrir miklum óbeinum áhrifum vegna breytinga á vistkerfi eða fæðuvef.
Einn höfunda skýrslunnar nefnir í viðtali við BBC að fulltrúar á Loftslagsráðstefnunni í Bonn ættu að leggja þá áherslu á súrnun sjávar sem viðfangsefnið á skilið – en hingað til hefur hlýnun jarðar átt sviðið að stórum hluta. Súrnun hafsins mun þó ekkert síður en loftslagsbreytingar hafa áhrif á vistkerfið og lífsskilyrði á jörðinni allri.
Of lítið vitað
Í Fiskifréttum nýlega var fjallað um súrnun sjávar og þar kom fram að einungis rúmur áratugur er síðan vísindamenn fóru að beina athygli sinni að súrnun hafsins í einhverjum mæli og skoða áhrif hennar á lífríkið í hafinu. Smám saman hefur þekkingin vaxið en þetta er flókið ferli og erfitt að útbúa rannsóknir sem spá fyrir um viðbrögð vistkerfa við breyttum aðstæðum. Sú vegferð er enn afar skammt á veg komin.
Margt bendir þó til þess að fisktegundum í sjónum geti fækkað þegar hafið súrnar. Sumar tegundir muni eiga auðveldara með að lifa af samkeppnina þegar aðstæður í hafinu verði erfiðari, en það séu ekkert endilega þær tegundir sem menn kæra sig helst um að veiða og snæða.
Enn sem komið er vita menn lítið um möguleg áhrif af súrnun sjávar á lífríkið hér við land sérstaklega en nokkrar rannsóknir sem birst hafa síðustu ár gætu gefið vísbendingar, að því er kom fram í viðtali við Hrönn Egilsdóttur, sérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun.
Hún sagði frá því að búið sé að rannsaka þorskinn síðustu ár, og þá aðallega einstaka þorska í fiskibúrum, ekki þorska í sínu náttúrulega umhverfi. Sumar rannsóknir sýni að þorskar þoli súrnun nokkuð vel, en ein rannsókn sýndi að það urðu vefjaskemmdir í lirfum þorska í súrari sjó. Lirfustig lífvera þurfi að rannsaka sérstaklega en margar fyrstu rannsóknir á súrnun sjávar beindust að seinni lífsstigum hjá fiskum og skeldýrum. Áhrifin á skeldýr hér við land eru heldur ekki vel þekkt enn sem komið er.