Tveir nýir íslenskir togarar sem búnir eru byltingakenndri nýrri tækni voru sjósettir í Kína fyrir skömmu. Þetta voru þeir Páll Pálsson ÍS, frá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru (HG), og Breki VE, frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Togararnir þykja gott dæmi um viðleitni sjávarútvegsfyrirtækja til að draga úr orkunotkun og lágmarka umhverfisáhrif af fiskveiðum.
Skipin eru smíðuð í Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína en hönnunin er íslensk. Það sem helst vekur eftirtekt í nýrri hönnun, sem þó byggir á eldri hugmyndum, er ný og stærri gerð skipsskrúfu sem ætlað er að skila mun betri eldsneytisnýtingu heldur en hefðbundnar skrúfur gera. Það er skipaverkfræðistofan Skipasýn sem hefur staðið að hönnun skrúfunnar í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin.
„Útreikningar okkar og sýna að fimm metra skrúfan er á bilinu 30-40% sparneytnari en þriggja metra skrúfa,“ segir Rakel Sævarsdóttir, verkefnastjóri Skipasýnar. Hún segir óhætt að tala um nýju skipin sem „umhverfisvænstu ferskfisktogara í heimi.“
Frá þessu er skýrt á vef SFS.
Þeir sem vilja fylgjast með smíðinni er bent á Facebooksíðu sem nefnist Nýsmíði Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf og finna má HÉR.