Norsk stjórnvöld hafa gefið út heildarkvóta fyrir norsk skip úr íslenska loðnustofninum en veiðar úr honum máttu hefjast 8. júlí síðastliðinn í grænlensku lögsögunni og í norsku lögsögunni við Jan Mayen, að því er fram kemur á vef norskra útvegsmanna. Engar sögur eru hins vegar af því hvort norsk skip séu í startholunum að hefja þessar veiðar.
Norsk skip mega veiða í hringnót alls um 95 þúsund tonn af loðnu úr íslenska loðnustofninum. Þar af má veiða að hámarki 49 þúsund tonn í íslensku lögsögunni og að hámarki 59 þúsund tonn í grænlensku lögsögunni. Veiðarnar máttu hefjast 8. júlí við Grænland og Jan Mayen eins og að framan greinir. Veiðar við Ísland mega hins vegar ekki hefjast fyrr en 1. október í haust þar sem bann við sumarloðnuveiðum gildir í íslensku lögsögunni.