Undanfarin ár hefur sjófuglum fækkað víðast hvar við landið. Lundi er dæmi um slíkt og er fækkun hans tengd hruni sandsílastofnsins við landið. Súla sker sig úr en henni hefur fjölgað hér sem annars staðar við Atlantshafið vegna minnkandi veiða auk þess sem makríll hefur bæst á matseðil hennar, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Fæðuval súlu var rannsakað í Hellisey á árunum 2004 til 2007. Fyrsta árið bar mikið á sandsíli og síld. Árið 2005 fannst meira af síld en síli í fæðu súlu. Þetta er líka fyrsta árið sem verður vart við almennan afkomubrest hjá sjófuglum sem síðar hefur verið rakin til skorts á sandsíli. Árið 2006 var makríll fyrst greindur í fæðu súlu. Afkomubrestur hjá sjófuglum var líka meira áberandi það ár. Árið 2007 er svo makríll orðin áberandi fæða hjá súlu. Aukning á makríl hér við land er einn áhrifavaldurinn sem veldur fjölgun súlunnar en minnkandi nytjar eru taldar vega þyngra.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.