„Beint eða óbeint erum við öll háð fiskveiðum,“ segir Victor Agostinho frá Angóla. Hann er einn af 21 nemanda sem útskrifaðist frá Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hér í Reykjavík í síðasta mánuði.

Hann notaði námstímann til að gera rannsókn á seltu, súrefnismagni og öðrum umhverfisþáttum í sjónum út af strönd Angóla í von um að finna skýringar á því af hverju minna veiðist þar af hrossamakríl en áður.

Skólinn hefur verið starfræktur hér á landi í tuttugu ár og er liður í þróunaraðstoð Íslands.

Nemendur koma úr ólíkum heimshornum, dvelja hér í hálft ár og stunda rannsóknir í nánu samstarfi við Hafrannsóknarstofnanir, Matís og fleiri stofnanir og fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegnum hér á Íslandi.

Nemendur eru sérstaklega valdir inn í skólann í samstarfi við stjórnvöld og stofnanir í heimalandinu. Nám þeirra og rannsóknarstarf við skólann er lagað að því hverjar þarfirnar eru í heimalandi þeirra hvers um sig.

„Í rauninni er okkar markmið að aðstoða samstarfsaðila við að ná sínum þróunarmarkmiðum í sjávarútvegi, og jafnvel að hafa áhrif á hver þau eru,“ sagði Tumi Tómasson skólastjóri í viðtali við Fiskifréttir á síðasta ári.

Rannsóknir nemendanna nýtast líka vísindamönnum hér á landi, bæði hjá Hafrannsóknarstofnun og víðar. Sumir nemendanna koma líka aftur til Íslands í frekara nám, þá gjarnan doktorsnám sem tengist sérsviði þeirra hvers um sig.

Allir þeir sem Fiskifréttir ræddu við létu vel af dvölinni hér og kunnu kennurum sínum við skólann bestu þakkir fyrir fræðsluna og margvíslegan stuðning.

Kate St. Mark frá Sankti Lúsíu

Vandamál í fiskeldi
Kate St. Mark kemur frá St. Lúsíu, lítilli eyju í Karíbahafinu. Hún starfar þar í sjávarútvegsdeild landbúnaðarráðuneytisins og kom hingað til að rannsaka sjálfbærni í fiskeldi.

„Ástæðan er sú að við stöndum frammi fyrir ákveðnum vandamálum í fiskeldi. Eitt vandamálið er að mikið hefur verið kvartað undan fóðrinu sem notað hefur verið. Við fáum margar kvartanir frá fiskeldisbændum. Ég var því send hingað sem embættismaður í sjávarútvegsdeild ráðuneytisins til að fá betri upplýsingar um fiskafóður, samsetningu þess og gerð, í von um að lausn finnist á þessum vanda.“

Hún komst að því að töluvert vantar upp á gæði hráefnisins sem notað er í fiskafóður. Ekki síst er þeim efnum ábótavant sem notuð eru í staðinn fyrir fiskimjöl.

„Vegna þess að þessi efni eru ekki nógu góð þá vex fiskurinn ekki nógu hratt og nær ekki fullri stærð. Þetta er það sem við þurfum nú að fara að lagfæra.“

Hún kom með sýni með sér frá St. Lúsíu og gerði á þeim rannsóknir hér með þeim búnaði sem hér er að finna. Einnig skoðaði hún efni sem fiskeldisbændur í St. Lúsíu geta notað til að búa til eigin fiskafóður.

„Það er gott efni sem fengið er á staðnum og hentar bændunum best. Þannig að þeir geta notað það í staðinn fyrir fiskimjöl.“

Rannsóknir hennar hér geta því skipt sköpum fyrir fiskeldið á St. Lúsíu. Þar er töluvert um fiskeldi. Hjá ráðuneytinu eru skráðar þar um 80 fiskeldisstöðvar.

St. Lúsía er ekki nema 617 ferkílómetrar að flatarmáli, minni en Reykjanesskaginn hér á landi, en þar búa um 180 þúsund manns.

„Þarna er mikið fjalllendi þannig að ræktarland er ekki mikið. Flestir íbúanna tengjast því sjávarútvegi á einn eða annan hátt. Fiskveiðar eru mikið stundaðar á litlum bátum og svo er fiskeldið komið líka.“

Hún segir það hafa verið skemmtilega reynslu að koma hingað.

„Það var gaman að kynnast fólki og upplifa annað veðurfar. Á St. Lúsíu er oftast 27 til 30 stiga hiti allt árið. Svo rignir stundum og stöku sinnum koma fellibyljir.

Hún segir mataræðið hér mjög frábrugðið því sem hún á að venjast. Hún borði mikið af fiski heima hjá sér en það sé allt annars konar fiskur.

„Þið eruð með kaldsjávarfisk, laxfiska og slíkt sem er mjög bragðgóður, en við erum með heitsjávarfisk, mahimahi eða gullmakríl og túnfisk.“

Quian Zhang og Lu Hang frá Dalian í Kína

Sjö milljón manna smáborg
Quian Zhang og Lu Hang koma frá borginni Dalian í Kína.

Dalian er skammt frá höfuðborginni Beijing í norðurhluta Kína.

„Nei, hún er ekki svo stór,“ segja þær, spurðar hvort Dalian sé stór borg. En bæta því strax við að þar búi reyndar sjö milljón manns eða svo.

„En þetta er mjög falleg borg við sjávarsíðuna,“ segir Lu.

Þær starfa báðar við sjávarútvegsháskólann þar í borg, Dalian Ocean University, þar sem þær stunda kennslu og rannsóknir. Quian hefur sérhæft sig í fiskvinnslu en Lu kennir matvælafræði. Þær lögðu báðar stund á gæðastjórnun í námi sínu hér á landi.

Þær segja skólann sinn hafa verið í samstarfi við Sjávarútvegsskólann hér á landi í nærri 20 ár. Á hverju ári séu sendir nemendur frá Kína hingað til Íslands.

„Við erum ekki þær fyrstu, það voru margir á undan okkur.“

Báðar völdu þær sér námsbraut um gæðastjórnun í náminu hér. Quian gerði rannsóknir á vinnslu á sæbjúgum en Lu rannsakaði matreiðsluaðferðir á makríl.

Íslensk sæbjúgu erfið viðureignar
„Fáir Íslendingar vilja borða sæbjúgu,“ segir Quian, „en ef þú ferð til Kína er líklegt að kínverskir vinir þínir bjóði þér upp á sæbjúgu.“

Hún segir kínversk sæbjúgu gerólík þeim sem veiðast hér við land. Sæbjúgu séu mjög næringarrík en ólíkt kínverskum sæbjúgum, sem eru mjúk og auðveld í meðförum, er íslenska tegundin býsna hörð undir tönn.

Af kurteisi við Íslendinga spurði hún sérstaklega hvort hún mætti tala af hreinskilni.

„Það er erfitt að bíta í íslensk sæbjúgu og þau eru um það vil þrisvar eða fjórum sinnum stærri en kínverskar tegundir,“ sagði hún þegar blaðamaður hafði fullvissað hana um að óþarfi væri að vera með neina hæversku. „Í Kína erum við með mjög lítil sæbjúgu sem auðvelt er að elda með ýmsum hætti. Við þurrkum þau líka og söltum. En hér á Íslandi er það einungis hráefnið sem er veitt og líklega eru 95 prósent af því flutt út til Kína frosið í gámum. Kínversk fyrirtæki taka það síðan til vinnslu og framleiða vörur til neytenda.“

Breyttist í vökva
Hún segist hafa skoðað sérstaklega prótíninnihald íslenskra sæbjúgna og hvernig það varðveitist í vinnslu og flutningi. Hún hvatti Íslendinga til að hefja frekari vinnslu á sæbjúgum hér. Varan yrði þá verðmætari og hægt yrði að selja sæbjúgun niðursoðin eða þurrkuð til Kína.

Hún sagðist hafa verið í góðu samstarfi við þau fáu íslensku fyrirtæki sem veiða sæbjúgu hér, fengið hjá þeim ókeypis sýnishorn sem hún fór síðan með til Matís þar sem hún fékk aðstöðu til að matreiða þau.

„Ég prófaði mismunandi búnað til að elda þau, við misjafnan hita og mislengi. Svo skoðaði ég hvernig áferðin breyttist og hvernig prótíninu reiddi af, hvort prótíninnihaldið hélst eða hvort það minnkaði.“

Hún sagði sæbjúgun innihalda sterkt ensím sem torveldi alla matreiðslu.

„Það breytir leysir upp hráefnið, breytir því í vökva. Ég var að kanna hvernig best er að gera þetta ensím óvirkt, en það reyndist mjög erfitt. Eftir tveggja tíma suðu í vatni var ensímið enn virkt.“

Hún segir dæmi til þess að þetta hafi komið sér illa við útflutning héðan.

„Árið 2015 var sendur héðan gámur með 50 tonnum af hráefni til Kína, en gámarnir höfðu ekki verið þrifnir nægilega vel þannig að þegar sendingin var komin til Kína var allt á floti. Varan var ónýt.“

Þess vegna segir hún svo mikilvægt að skoða hvernig best er að forvinna afurðina áður en hún er sendi af stað til Kína.

Hún segist sannfærð um að hægt sé að gera mjög góða vöru úr íslensku sæbjúga, og hefur fullan hug á að rannsaka það frekar fái hún tækifæri til að koma hingað aftur í doktorsnám.

„Ef ég fæ leyfi til þess frá háskólanum okkar úti þá kem ég kannski strax á næsta ári og held þá áfram með rannsóknir mínar á sæbjúganu.“

Ráðist gegn fitu
Lu einbeitti sér síðan að makrílnum, sem er afar fitumikill fiskur, og skoðaði mismunandi leiðir við matreiðslu með þránun fitunnar í huga.

„Aðferðir við að elda fisk hér á Íslandi eru mjög ólíkar því sem tíðkast í Kína,“ segir hún. „Hér elda menn fisk kannski í fimm til sex mínútur en í Kína telja menn að bragðið verði því betra sem menn elda fiskinn lengur.“

Einkum er hún þá að tala um fituríkan fisk á borð við makrílinn.

„Þorskurinn til dæmis er allt öðru vísi. Fituinnihald makrílsins er um 40 prósent en þorsksins kannski fimm prósent.“

En hún prófaði að elda makrílinn bæði stutt og lengi, annars vegar í sex mínutur og hins vegar í þrjátíu mínútur. Hún gufusauð fiskinn, steikti hann ekki.

„Ég komst að því að munurinn er ekki svo mikill varðandi þránun fitunnar. Ég skoðaði bæði breytingar á fituefni, breytingar á fosfatíði og samsetningu fitusýrunnar. Niðurstaðan varð sú að upp að þrjátíu mínútum geta menn valið eldunartímann að vild. Því lengur sem menn elda fiskinn því bragðbetri verður hann samt, því þá kemst saltið betur inn í fiskinn.“

Áður en hún kom hingað til lands hafði hún reyndar mestan áhuga á að skoða breytingar á fosfatíði. Hér eru hins vegar ekki til fisktegundir sambærilegar þeim sem þekkjast í Kína og hún hafði mestan áhuga á að skoða.

„Fosfatíð er nefnilega mjög heilnæmt fyrir fólk. Eina hráefnið sem ég hafði var makríll og þar er fosfatið því miður í mjög litlu magni. Þannig að ég breytti rannsóknum mínum í að skoða fituefni og breytingar á því.“

Veroneica Mpomwenda frá Úganda

Saknar matarins heima
Veroneica Mpomwenda frá Úganda er ein þeirra sem hafa komið aftur hingað til lands að stunda frekara háskólanám eftir að hafa lokið sex mánaða námi við Sjávarútvegsháskólann.

Við Sjávarútvegsháskólann lagði hún áherslu á fiskveiðistjórnun en leggur hún stund á doktorsnám við Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindafræði, þar sem hún víkkar út þær rannsóknir sem hún hafði áður gert hér á landi. Hún stefnir á að útskrifast í sumar.

Heima í Úganda starfar hún hjá hafrannsóknarstofnun ríkisins og námið hennar hér tengist störfum hennar þar með beinum hætti.

„Ég er að gera rannsókn á stjórn fiskveiða með gögnum að heiman. Þar er Viktoríuvatn þar sem stundaðar eru smábátaveiðar. Flestir eru á litlum árabátum sem veiða nálægt ströndinni en sumir eru á stærri bátum með vélum og sigla þá lengra út á vatnið.“

Viktoríuvatn er eitt stærsta stöðuvatn heims, nærri 69 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli og þar með töluvert stærra en hálft Ísland.

„Það eru meira en 20 þúsund manns sem stunda veiðar í vatninu. Þar eru ferskvatnsfiskar, flestir litlir sem veiddir eru nálægt ströndinni, mest til eigin neyslu eða á markað í nágrannaþorpunum, en stóru bátarnir sigla lengra út og veiða stærri fiska, einkum nílaraborra sem er veiddur að mestu til útflutnings.“

Stærri bátarnir eru reyndar ekki stórir á íslenskan mælikvarða. Þeir stærstu eru kannski fjórtán metrar að lengd, en þeir eru búnir vélum og komast lengra.

Stóra vandamálið sem við er að glíma varðandi fiskveiðar í Viktoríuvatni er ofveiði. Þess vegna er Veronica að kynna sér málefni fiskveiðistjórnunar hér.

„Það er ekki mikil stjórn á fiskveiðunum heima. Það eru takmarkanir á því hvaða tegundir veiðarfæra má nota og hver möskvastærðin má vera. En engar takmarkanir hafa verið settar á fjölda fiskimanna og báta. Það er stærsta vandamálið. Rannsóknir mínar snúast um það hvaða áhrif þessar veiðar hafa á fiskistofnana. Ástandið er þannig að bátarnir eru að fá sífellt minni afla. Til þess að ná í nægan afla þurfa þeir að veiða lengur. Aðrir fara nær ströndinni og veiða smærri fiska, en það er ekki gott.“

Þessi vandi er erfiður viðureignar, ekki síst vegna fátæktar því erfitt er að neita fólki um að afla sér lífsviðurværis.

„Það eru engar almannatryggingar og lítið um störf að hafa. Þetta er þeirra lífsmáti og þegar stjórnmálamenn standa frammi fyrir kosningum þá gefa þeir loforð um að leyfa fólkinu að veiða að vild.“

Hún vonast til þess að breytingar geti orðið á þessu þegar fram líða stundir. Nauðsynlegt sé að hafa stjórn á fiskveiðunum því annars þurrausa menn vatnið. Fiskurinn hverfur.

Á vinnustaðnum hennar, hafrannsóknarstofnuninni í Jinja, eru stundaðar rannsóknir. Niðurstöður þeirra eru lagðar fyrir stjórnmálamenn en síðan ráða þeir hvað þeir gera.

Veronica býr í bæ sem heitir Jinja, sem einu sinni var lítið þorp en er nú 70 þúsund manna smáborg.

„Þetta hefur verið gerst hratt, nú er mikið líf og mikið að gerast. Erlend fjárfesting streymir inn. Það er verið að reisa nýjar byggingar, nýjar verslanir, nokkrar verslanamiðstöðvar.“

Bærinn er vel staðsettur við ána Níl. Þar liggur þjóðbraut sem tengir austur- og vesturhluta landsins.

Hún segir dvölina hér hafa verið skemmtilega reynslu, en samt verði gaman að koma heim.

„Ég sakna eiginlega matarins. Hérna reynir maður nýjar uppskriftir en stundum verður það leiðigjarnt.“

Uppáhaldsmaturinn heima er bananategund sem kallast matoke.

„Þeir eru ekki þroskaðir en hálfgulir og maður sýður þá og gerir úr þeim mauk. Það er svo gott með góðri súpu.“

Victor Agostinho frá Angóla

Námið breytti viðhorfum
Victor Agostinho kemur frá Angóla. Þar ólst hann upp í sveit en starfar nú hjá Hafrannsóknastofnun landsins. Sjávarútveginn valdi hann sér þegar hann hélt til framhaldsnáms í nágrannaríkinu Namibíu, og sér ekki eftir því.

„Sjálfur kem ég úr fjölskyldu kennara. Mamma og pabbi voru bæði kennarar, en þau eru bæði hætt að kenna.“

Hingað kom hann til að læra meira um fiskveiðistjórnun. Sjávarútvegur vegur þungt í efnahagslífi Angóla, ekki síst í sjávarbyggðum við ströndina þar sem fátækt fólk þarf að reiða sig alfarið á sjóinn til framfærslu.

„Námið hér á Íslandi var mikil upplifun, opnaði augu mín. Ég hef fengið allt aðra sýn á sjávarútveg og mikilvægi hans fyrir efnahagslífið. Beint eða óbeint erum við öll háð fiskveiðum.“

Hann segir efnahag Angóla lengi vel hafa verið reistan nánast eingöngu á olíutekjum, en kreppa sem varð þar árið 2014 þegar olíuverð hrundi ýtti við stjórnvöldum.

„Stjórnin sá að það þyrfti að auka fjölbreytnina og tók að fjárfesta meira bæði i landbúnaði og sjávarútvegi. En svo hafa verið ákafar umræður í pólitíkinni um kvótann, hver eigi rétt á að eiga kvóta og hver eigi rétt á að eiga fiskiskip.“

Sjávarútvegur í Angóla snýst að mestu leyti um uppsjávarveiðar og mikilvægast tegundin þar er hrossamakríll.

„Þær veiðar gefa af sér góðar tekjur og þess vegna er svo mikilvægt að hafa góða stjórn á þeim. Það er mikið lagt í veiðarnar en aflinn hefur minnkað mikið. Í byrjun áttunda áratugsins voru menn að veiða allt upp í 600 þúsund tonn en núna er aflinn kominn niður undir 90 þúsund tonn.“

Hafrannsóknir í Angóla beinast nú ekki síst að því að kanna hvað veldur þessu. Ofveiði er líklega einn þáttur í því en Victor segir ekki rétt að einblína eingöngu á veiðiþáttinn. Umhverfisþættir geti líka átt þar hlut að máli og rannsóknir hans hér beindust að því að skoða þann möguleika betur. Hann tók með sér gögn frá Angóla og hefur verið að skoða hvernig hitastig, selta, súrefnismagn og blaðgræna hefur breyst í hafinu út af Angóla undanfarin ár.

„Við höfum tekið eftir því að hitinn hefur hækkað töluvert, sérstaklega á því svæði þar sem mest hefur veiðst. Einmitt þar hafa hlýir og kaldir hafstraumar mæst. Þetta svæði er mikilvægt fyrir fiskinn því þar fær hann næringu, þar er hitastigið rétt og þar er súrefnið.“

Victor telur að breytingar í hafinu hafi átt sinn þátt í því að minna hefur veiðst, fiskurinn hafi kannski fært sig til.

„En þetta þurfum við nú að rannsaka betur, og taka þá tillit til bæði veiðanna og umhverfisþáttanna þegar við gefum ráðgjöf. Það er síðan stjórnvalda að meta það út frá öðrum hagsmunum hvort þau vilji taka mark á því sem frá okkur kemur.“