Nú hillir undir að hægt verði að taka upp svokallaða fjarvigtun í smærri fiskihöfnum landsins ef marka má stjórn Hafnasambands Íslands
„Málefnið hefur verið til umræðu milli Fiskistofu og Hafnasambands Íslands (HÍ) um nokkurt skeið, þar sem vitnað er í samstarfsyfirlýsingu sem var undirrituð að tillögu ráðherra. Fulltrúar HÍ hafa lagt til að farið verði í lagabreytingu til að veita ráðherra heimild til að setja reglugerð um fjarvigtun,“ segir í skýrslu stjórnar Hafnasambandsins sem lögð var fram á nýlegu Hafnasambandsþingi á Akureyri.
Þá segir að reglugerðin myndi þá kveða á um hvernig og hvar fjarvigtun yrði heimil, til að ná þeim markmiðum sem sett séu fram, til dæmis í sveitarfélögum með fleiri en eina höfn.
Verkefni sem virðist vera klárt
„Það var samstaða um að báðir aðilar myndu skiptast á tillögum að nauðsynlegum breytingum og vinna saman að því að koma þeim í framkvæmd. Nú þegar kjörtímabili núverandi stjórnar Hafnasambands Íslands er að ljúka virðist verkefnið vera klárt og vonir standa til að tilraunaverkefni fari af stað innan tíðar,“ segir stjórn Hafnasambands Íslands.
Áður hefur verið fjallað um áform um fjarvigtun í Fiskifréttum, meðal annars 8. mars síðastliðinn þar sem sagði frá því að vonir stæðu þá til að tilraun með fjarvigtun myndi hefjast síðasta vor. Af því varð þó ekki. Talsverð hagræðing er talin geta orðið með upptöku þessa verklags.