Það eru nokkur skip á loðnuveiðum í Breiðafirði og veiðin hefur verið ágæt að sögn Þorsteinn Kristjánssonar skipstjóra á Aðalsteini Jónssyni SU.

„Við fréttum af torfu hér norður af í nótt og skipin tóku stefnuna á hana en snéru við þegar kom í ljós að þetta voru allt hængar og við að sækjast eftir hrognum. Mér sýnist flestir vera að verða búnir með kvótann og það styttist því í lokin á vertíðinni. Veiðarnar hafa gengið vel undanfarna daga en það hefur aðeins dregið úr þeim síðasta sólarhringinn,“ segir Þorsteinn.

Samkvæmt tölum Fiskistofu hefur 420.000 tonnum af loðnu verið landað á vertíðinni og 43.000 tonn eru  útistandandi af kvótanum. Afgangurinn er sjálfsagt minni því varla er allur landaður afli kominn á skrá auk þess afli er um borð í veiðiskipunum.